Undanfarin þrjú ár hefur grunntímakaup hækkað mest hjá Reykjavíkurborg, að því er kemur fram í nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar. Grunntímakaup frá mars 2019 til júní 2022 hækkaði um 34,5% hjá Reykjavíkurborg en 24,2% á almenna vinnumarkaðnum og 26,6% hjá ríkinu.

„Áhrif vinnutímastyttingar eru sömuleiðis minnst á almenna markaðnum (1,4 prósentustig) en mest hjá borginni (4,2 prósentustig) en vinnutímastytting var að jafnaði meiri á opinbera markaðnum en þeim almenna.“

Séu áhrif vinnutímastyttingar tekin út var hækkun grunnlauna svipuð hjá ríkinu og á almenna markaðnum, eða um 23%, en „töluvert meiri hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum“ eða nálægt 30%.

„Þróun grunnlauna endurspeglar best kjarasamningsbundnar launahækkanir og breytingar á umsömdum vinnutíma.“

Tekið úr nóvemberskýrslu Kjaratölfræðinefndar
Tekið úr nóvemberskýrslu Kjaratölfræðinefndar

Grunnlaun ASÍ í borginni hækkað mest

Í skýrslunni er einnig sýnd þróun grunntímakaups á umræddu tímabili eftir heildarsamtökum. Mest var hækkunin hjá félögum í aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og BSRB en minnst innan iðnfélaga ASÍ og aðildarfélaga BHM.

Vinnutímastytting var mest hjá BSRB en minnst hjá SGS, þar sem ekki var kveðið sérstaklega á um almenna styttingu fyrir verkafólk.

Mest hækkun grunntímakaups á tímabilinu frá mars 2019 til júní 2022 mældist 48,2% hjá launafólki innan vébanda ASÍ sem starfar hjá Reykjavíkurborg. Launafólk í aðildarfélögum BSRB kom þar á eftir með ríflega 40% hækkun. „Sama mynstur heldur sér að mestu fyrir önnur sveitarfélög.“