*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 1. nóvember 2018 14:06

Borgin lokar aftur miðbænum

Vegna Airwaves tónlistarhátíðarinnar verður Laugaveginum og fleiri götum lokað á kvöldin fyrir bílaumferð á ný.

Ritstjórn
Umferð hefur verið leyfð að nýju niður neðsta hluta Laugavegar í haust en frá miðvikudegi í næstu viku verður lokað á kvöldin á svæðinu fram á sunnudag vegna tónlistarhátíðar.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eins og undanfarin ár verður völdum götum í miðborginni breytt í göngugötur á meðan Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni stendur, dagana 7-10 nóvember. Göturnar sem um ræðir verða þó opnar fyrir akstur milli kl. 07.00 og 18.00 yfir hátíðina.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa kaupmenn í miðborginni kvartað yfir sífelldum lokunum en um tíma hugðist borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar hafa Laugaveginn lokaðan í allan vetur. Eftir miklar mótbárur minnihlutans í borgarstjórn og ónógs samráðs við kaupmenn var fallið frá því í bili.

Eftirfarandi götur verða göngugötur dagana 7. til 10. nóvember á meðan á hátíðinni stendur:

Laugavegur frá Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtsstrætis og Skólavörðustígur frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti.

Þetta var samþykkt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar 31. október og hefur verið sent til umfjöllunar í borgarráði segir í fréttatilkynningu.

Talsverður fjöldi erlendra gesta sækir hátíðina auk fjölda Íslendinga. Auk hátíðarinnar sjálfrar verður mikið af svokölluðum „off- venue“ eða hliðarviðburðum þessa daga sem flestir verða miðsvæðis í borginni.

Ekki þarf miða inn á hátíðina til þess að mæta á hliðarviðburðina og því má gera ráð fyrir mun fleiri gestum á hátíðina en þeim sem kaupa miða segir jafnframt í tilkynningunni.