Oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn telur vafasamt að unnt sé að réttlæta að borgin eigi og reki fjarskiptafélag í því árferði sem nú ríkir. Vísast þar til Gagnaveitu Reykjavíkur (GR).

Sem kunnugt er starfar GR á fjarskiptamarkaði og hefur lagt leiðslur fyrir nettengingar á höfuðborgarsvæðinu og í nærsveitarfélögum. Frá árunum fyrir hrun hefur félagið stækkað net sitt um sex til sjö þúsund tengingar ár hvert. Árið 2009 voru ríflega 28 þúsund notendur tengdir við kerfi GR en í fyrra voru þeir orðnir ríflega 100 þúsund. Virkir notendur voru tæplega sex þúsund fyrir áratug en sé miðað við árið í fyrra hafði fjöldi þeirra nærri tífaldast.

Afkoma síðasta árs var ágæt. Tekjur námu 3.134 milljónum króna og jukust um tæplega hálfan milljarð milli ára. EBITDA var ríflega 2.1178 milljónir en að teknu tilliti til afskrifta var afkoman jákvæð um 1.222 milljónir. Skuldir hafa hins vegar aukist að sama skapi en vaxtaberandi skuldir félagsins nema nú 13,6 milljörðum króna og hækkuðu um ríflega 1,5 milljarða króna milli ára. Hlutfallið vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA er því 6,4 en það fór hæst í 7,2 árið 2017.

Lán bundin skilyrði um eignarhald

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í fyrra, um framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar hjá GR árin 2016-2017, má lesa hluta þeirra skilyrða sem lánveitandi félagsins setti fyrir henni. Þar er meðal annars kveðið á um að bankanum sé heimilt að segja upp eða gjaldfella lánið verði eigendaskipti á GR eða ef til þess kemur að OR – Reykjavíkurborg er eigandi 93,5% hlutar í OR – selji meira en 49% af hluta sínum í félaginu.

Hluti skulda GR var síðan í formi lánveitingar frá OR í formi sjóðspotts án þess að sérstakur lánasamningur hafi verið gerður. Að mati PFS var það í andstöðu við eldri ákvörðun stofnunarinnar og fjarskiptalög. Sagði þar enn fremur að slíkt gæti ekki verið „réttlætanlegt undir neinum kringumstæðum“ og að sú ráðstöfun væri litin alvarlegum augum.

„Óheimilt er að í nýjum lánssamningum við ótengdar lánastofnanir sé sérstakt skilyrði, um að ef eignarhlutur OR í GR fari undir 50% sé viðkomandi lánastofnun heimilt að gjaldfella lán til GR,“ segir enn fremur í ákvörðunarorði PFS.

Þessu til viðbótar hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) haft til skoðunar hvort fjármögnun GR hafi falið í sér ríkisaðstoð sem ekki stenst ákvæði EES-samningsins. Það mál hefur verið til meðferðar í um hálfan áratug en fyrir síðustu áramót kunngjörði ESA drög að ákvörðun sem send var Íslandi til andmæla.

Að mati ESA hefur GR notið kjara á lánum sínum, sem aðilum á almennum markaði standa ekki til boða, í ljósi þess hver eigandi félagsins er. Meðal annars hafi félagið fengið óbeinar greiðslur frá OR við lagningu á ljósleiðara í Ölfusi, fengið skammtímalán frá móðurfélaginu og notið sérkjara á lánum frá fjármálastofnun í skjóli þess að OR verði áfram meirihlutaeigandi félagsins.

Kjörið færi til að lækka skuldir

„Í fyrsta lagi er stór spurning hvort borgin eigi, í gegnum dótturfélag sitt, að standa í því að eiga fjarskiptafyrirtæki. Ég fæ ekki betur séð en að það sé til nóg af öðrum fjarskiptafélögum og botna því ekki hví borgin stendur í slíkum samkeppnisrekstri,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .