*

föstudagur, 24. janúar 2020
Innlent 11. maí 2019 13:09

Borgin megi ekki treysta á eignasölu

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar segir brýnt að sett verði þak á erlendar skuldir fyrirtækja borgarinnar.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Afgangur samstæðu Reykjavíkurborgar lækkaði úr 28 milljörðum króna í 12,3 milljarða króna. Afkoma samstæðunnar var 5,5 milljörðum króna verri en fjárhagsáætlun hafi gert ráð fyrir

Í skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar með ársreikningnum segir að brýnt sé að rekstur A-hluta skili verulegu veltufé frá rekstri til að standa undir hans sem og að ríflegur afgangur verði af rekstri A-hluta. Bent er á að af 4,7 milljarða rekstrarafgangi A-hluta hafi 3,5 milljarðar verið vegna sölu byggingarréttar og söluhagnaðar eigna, sem einungis falli til einu sinni. Þá séu orðin sýnileg merki um að hægja sé farið á hagvexti sem birtist meðal annars í að hægst hefur verulega á hækkunum fasteignaverðs. Vegna þessa námu matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða 3 milljörðum króna en áætlun þess gerði ráð fyrir 5,6 milljarða króna hækkun. Þá er bent á að halli hafi verið á rekstri grunnskóla, leikskóla, hjúkrunarheimila og málaflokki fatlaðs fólks á síðasta ári, en þeim málaflokki hafi ekki fylgt nægt fjármagn frá ríkinu samhliða auknum verkefnum.

Í ábyrgð fyrir 89 milljarða hjá OR

Samkvæmt lögum um skuldaviðmið sveitarfélaga eru skuldir Orkuveitu Reykjavíkur utan við útreikning á skuldaviðmiði. Engu síður er afkoma Reykjavíkurborgar nátengd afkomu Orkuveitu Reykjavíkur. Álverð lækkaði um 18% á árinu sem olli því að fjármagnsgjöld urðu neikvæð upp á 7,5 milljarða króna vegna tengingar tekna Orkuveitunnar við álverð. Þá bendir fjármálaskrifstofan á að Orkuveitan glími við afborgunarþunga lána.

Lán Orkuveitunnar sem séu í beinni ábyrgð borgarsjóðs nemi 89 milljörðum króna og mikilvægt sé að Reykjavíkurborg hafi aðgerðaráætlun hvernig ábyrgðunum verði mætt ef á reyni. Þá sé greiðsla á skuldum Orkuveitunnar að miklu leyti í erlendri mynt á næstu árum og því verði nettó útflæði erlends gjaldeyris á árunum 2019 til 2025 nærri 18 milljarðar króna. Á sama tíma verða tekjur Orkuveitunnar ekki nema að litlu leyti í erlendri mynt. Fjármálaskrifstofan telur að borgin þurfi að móta sér stefnu um hverjar erlendar skuldir fyrirtækja í hennar eigu séu og brýnt sé að skuldir séu í sömu mynt og þær tekjur sem lánveitingin byggi á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér