Jón Gunnarsson ráðherra samgöngumála segir nauðsynlegt að kortleggja heildarkostnað við uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, áður en tekin verði ákvörðun um framlag ríkisins til Borgarlínunnar, uppbyggingar í almenningssamgöngum.

„Borgarlínan ein og sér kemur ekki í staðinn fyrir aðra uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Legg ég áherslu á að þetta verði unnið í samhengi, svo við höfum heildarmynd um kostnaðinn,“ segir Jón.

Ekki er gert ráð fyrir framlagi til uppbyggingar Borgarlínu í fjármálaáætlun ríkisins en kostnaðurinn er áætlaður 1,1 til 1,15 milljarðar á hvern kílómetra. Gæti því heildarkostnaðurinn numið 63 til 70 milljörðum króna. Segir Jón að enn hafi ekki verið farið fram á að ríkið taki þátt í kostnaðinum.

Minnkar ekki umferð

Jón segir að ástandið í vegakerfi höfuðborgarinnar muni ekki skána, þótt Borgarlínan verði að veruleika, og því sé nauðsynlegt að horfa á alla uppbyggingu á svæðinu í samhengi.

„Vegagerðin telur nauðsynlegt að byggja Sundabraut. Það er alveg ljóst að Ártúnsbrekkan er sprungin en um hana fara nú 100 þúsund bílar á hverjum degi. Það vandamál verður að leysa með einhverjum hætti, jafnvel þó Borgarlínan komi til,“ segir Jón.

„Borgarlínan er ekki að fara að snúa þróuninni við og minnka umferð en kannski mun hún koma í veg fyrir að ástandið versni eins hratt og annars myndi gerast. Því verður ekki búið við það að stór verkefni í samgöngumálum, og þá sérstaklega innan Reykjavíkurborgar, verði látin bíða lengur.“ Jón segir að borgin gæti hafa skapað sér skaðabótaskyldu með stefnu sinni.

„Sundabrautin sker sig auðvitað úr í umfangi, en ætli það megi ekki reikna með að kostnaðurinn við fyrsta áfanga sé í kringum 20 milljarðar. Reykjavíkurborg hefur hagað skipulagsmálum þannig, að þeir hafa komið í veg fyrir að valkosturinn í legu hennar sem Vegagerðin lagði áherslu á, yrði raunhæfur,“ segir Jón og vísar í áætlaða uppbyggingu í Vogahverfinu.

„Vegagerðin hefur gert ítrekaðar athugasemdir við þetta í skipulagsferlinu og gert borginni grein fyrir að hún gæti þurft að bera mismuninn á kostnaðinum sem bætist við að dýrari leið sé farin. Vegalög kveða á um að Vegagerðin geti krafið sveitarfélög um viðbótarkostnaðinn sem af því hlýst að fara ekki að ráðleggingum og vinna í samkomulagi við hana. Er um að ræða kostnað sem gæti numið um 10 milljörðum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .