Reykjavíkurborg stefnir á metár í útgáfu skuldabréfa upp á alls 34 milljarða í ár, en þeir tæpu 10 milljarðar sem gefnir voru út í fyrra voru þá nýtt met.

Borgin íhugar möguleikann á útgáfu styttri skuldabréfa en áður hefur tíðkast, sem bera nú talsvert lægri vexti en lengri bréf, og hefur borgarráð þegar samþykkt heimild þess efnis til handa fjármálasviðs. Þar spilar inn í að hluti lántöku borgarinnar er fyrir rekstrarhalla fremur en fjárfestingum, auk þess sem markaðurinn hefur verið fádæma stöðugur síðustu ár.

Reykjavíkurálag
Reykjavíkurálag
© vb.is (vb.is)

Álagið meira en eðlilegt geti talist
Agnar Tómas Möller, sérfræðingur á skuldabréfamarkaði, segir erfitt að bera saman kjör lengri skuldabréfa borgarinnar og ríkisskuldabréfa, sökum þess hvað borgarbréfin eru mikið lengri. „Borgin og félög hennar eru með lengstu skuldabréf á Íslandi. Það má því reikna með því að álag lengstu borgarbréfanna á undirliggjandi vaxtagrunn, væri hann til í sömu tímalengd, sé kannski um 110 punktar [1,1%]. Vaxtaferillinn er bara svo upphallandi.“

Álagið er að hans mati meira en eðlilegt getur talist. „Menn geta haft sína skoðun á því hverjir eru eðlilegir langtímavextir. Þeir þurfa ekkert endilega alltaf að fylgja skammtímavöxtunum, en það er nokkuð borðleggjandi að það markaðsálag sem sveitarfélögin standa frammi fyrir um þessar mundir getur varla talist mjög eðlilegt.“

Slær margfalt met í lántöku í ár
„Þetta er eitthvað sem við höfum ekki þurft að spá mikið í vegna þess að við höfum ekki verið að taka það mikið af lánum, en er að koma miklu meira inn á borðið hjá okkur núna,“ segir Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar. Vaxtakjörin séu þó alltaf í skoðun, og almennt reynt að taka ekki fleiri tilboðum en þörf krefji í útgáfu borgarinnar.

Mjög góð kjör hafi fengist á skuldabréfaflokk til 15 ára sem gefinn var út í maí síðastliðnum, en vegna ástandsins hafi fjárþörfin verið meiri en lagt var upp með nú í desember, og borgin því í erfiðri stöðu til að knýja fram góð vaxtakjör. Tilboðum var tekið upp á rúma 3,8 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 4,5%. „Í fullkomnum heimi hefðum við auðvitað viljað sjá kröfuna vera lægri þarna í desember, ég viðurkenni það alveg.“

Gert hafði verið ráð fyrir 6 milljarða útgáfu í fyrra, en hún varð að lokum tæpir 10; það mesta á einu ári. Sú upphæð bliknar hins vegar í samanburði við áætlanir þessa árs. „Við erum með mjög stóra lántökuáætlun upp á ríflega 34 milljarða, sem er mun meira en við höfum nokkurn tímann verið með í kortunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .