*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 23. júlí 2019 09:25

Borgin segir Uber auka umferð

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur vill stíga varlega til jarða í að leyfa akstur með deilismáforritum vegna umhverfismála.

Ritstjórn
epa

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúi Pírata sem mynda meirihlutann í Reykjavík ásamt Samfylkingu, VG og Viðreisn segir að borgarstjórn vilji stíga varlega til jarðar með að leyfa rekstur fyrirtækja eins og Uber að því er Fréttablaðið segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er mögulegt að breytingar í nýju frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem nú liggur fyrir í samráðsgátt stjórnvalda opni fyrir komu deilismáforrita í leigubílaakstri líkt og þau sem Uber og Lyft nota til að hámarka nýtni bíla sinna í akstri.

Í frumvarpinu verða fjöldatakmarkanir leigubílaleiga afnumin vegna krafna sem Evrópusambandið setur á landið í gegnum EES samninginn, sem og að leyft verður að kaupa akstur með bílum sem ekki hafa hefðbundna gjaldmæla leigubíla, en þó þannig að samið sé um heildarverðið fyrirfram.

Deildar meiningar hafa verið um það hvort það dugi til að heimila akstur Uber og Lyft hér á landi þar sem verðið rokkar eftir eftirspurn á hverjum tíma, en víða í borgum og löndum Evrópusambandsins ríkir bann við akstri bíla eftir slíkum deilismáforritum.

Óttast áhrif á markmið Parísarsamkomulagsins

„Þetta er svolítið snúið mál og ekki hægt að mála þetta svart og hvítt. Borgarstjórn hefur lýst því yfir að hún styðji að fjöldatakmörkunum á leigubílum verði af létt. Hins vegar þurfum við að stíga varlega til jarðar þegar kemur að svona fyrirtækjum eins og Uber,“ segir Sigurborg Ósk sem óttast áhrif á markmið Parísarsamkomulagsins um minni útblástur.

„Það er mjög gott að fá betri nýtingu á hverju farartæki fyrir sig en það er hins vegar ekki gott fyrir borgina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ef umferðin er að fara að aukast vegna tilkomu þessara fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að það hefur gerst í öðrum borgum.“

Sigurborg Ósk segir að borgin vilji fá fleiri leigubíla þar sem nýting hvers bíls sé mjög góð en huga þurfi vel að því hvernig tilkoma Uber og slíkra fyrirtækja myndi þróast í borginni. „Þetta snýst líka um betri landnotkun. Það er praktískt fyrir okkur að hafa færri bílastæði og nýta borgina betur. Uber getur hjálpað til við þetta en getur líka aukið umferð.“