Viðræður eru í gangi um kaup Reykjavíkurborgar á landi við Elliðavatn. Annars vegar er um að ræða Elliðavatnsbæ og litla lóð við hann. Hins vegar er í skoðun að kaupa 200 hektara land vestan við brunnsvæði í Heiðmörk og Rauðhóla. Orkuveita Reykjavíkur á landið og eru kaupin liður í því að rétta við fjárhaginn þar.

Á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is , kemur fram að á lista OR yfir eignir sem auglýstar hafi verið til sölu í janúar fyrir tveimur árum hafi m.a. verið Perlan og Elliðavatnsbær. Í síðasta mánuði samþykkti borgarráð að kaupa Perluna á 950 milljónir króna. Ekkert liggur fyrir um verðmæti landsins við Elliðavatn. Haft er eftir Eiríki Hjálmarssyni, upplýsingafulltrúa OR, að verðið ráðist af því hversu mikið land verði selt.

Í umfjöllun mbl.is segir að Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari við Landsyfirrétt, hafi eignast Elliðavatnsjörðina árið 1860. Rafmagnsveita Reykjavíkur eignaðist svo jörðina á árunum 1923 til 1928. Elliðavatnsbærinn er nú notaður undir skrifstofur og ýmsa aðra starfsemi Skógræktarfélagsins. OR eignaðist svo jörðina árið 2004. Jörðin var þá metin á 1,2 milljarða króna. Ekki mun í myndinni að greiða svo hátt verð fyrir jörðina ef salan gengur í gegn.