Hlutfall landsmanna sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu er nú um 64%, en var um 36% á tímum seinna stríðs. Höfuðborgarsvæðið hefur vaxið gríðalega á jöðrunum og hefur fjölgað meira í nágrannasveitafélögum Reykjavíkur heldur en í höfuðborginni sjálfri. Þetta kom m.a. fram í erindi Óttars Snædal, hagfræðings á efnahagssviði SA, á Fasteignaráðstefnunni 2016 í Hörpu.

Óttar bendir á að í alþjóðlegum samanburði þá er höfuðborgarsvæðið með dreifðari þéttbýlissvæðum, en á síðustu árum hefur þó verið lögð aukin áhersla á þéttingu byggðar. Uppbyggingarreitir næstu ára eru t.a.m. flestir í grónum hverfum innan bæjarmarka og er sú þróun í samræmi við verðbreytingar milli hverfa.

© vb.is (vb.is)

Það hefur ekki farið framhjá neinum að fasteignaverð hefur farið hækkandi undanfarið, eftir miklar lækkanir sem komu í kringum hrunið. Nú er svo komið að raunverð fasteigna er svipað og árið 2005.

Í erindi Óttars kemur fram að aðkoma stjórnvalda hefur heldur verið til þess fallin að ýkja sveiflur á byggingarmarkaði fremur en að draga úr þeim. Skortur hefur myndast á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki hafi það bætt úr skák að þegar byggingarmarkaðurinn var í lágpunkti þá tók gildi ný byggingarreglugerð sem jók kostnað við nýbyggingar. Nú þegar kominn er nokkur skriður á byggingarframkvæmdir liggur fyrir þinginu frumvarp um opinberan stuðning til nýbygginga á leiguhúsnæði.

Óttar segir að báðar þessar aðgerðir séu til þess fallnar að auka sveiflur í framboði húsnæðis og er því áleitin spurning hvort byggingarmarkaðurinn líði ekki öðru fremur fyrir offramboð af ríkisafskiptum.