Fyrirtæki í verktöku hafa í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI) hafa stefnt Reykjavíkurborg fyrir innheimtu svokallaðra innviðagjalda sem borgin tók upp haustið 2014. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í morgun og rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir óvissa um lögmæti gjaldsins vera óásættanlega.

„Hagsmunirnir eru miklir enda hefur gjaldið áhrif á byggingarkostnað og hækkar mögulega söluverð nýbygginga. Það eru því ekki síst hagsmunir almennings að úr þessum ágreiningi verði skorið,“ segir Sigurður í samtali við Markað Fréttablaðsins.

Miklar deilur hafa staðið um svokölluð innviðagjöld frá því að Reykjavíkurborg hóf að innheimta slík gjöld í uppbyggingarsamningum við lóðhafa um aukinn byggingarrétt. Deilt er um lögmæti gjaldheimtunnar, auk þess er gjaldið sagt bjóða heim hættunni á mismunun milli framkvæmdaaðila sökum þess að ekki er um fasta gjaldheimtu að ræða samkvæmt gjaldskrá heldur er gjaldið mismunandi í hverjum samningi fyrir sig.

Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðsins fékk frá Reykjavíkurborg síðastliðið vor nema heildartekjur af svokölluðum uppbyggingarsamningum tæpum 960 milljónum króna frá því að samningsmarkmið voru fyrst samþykkt í borgarráði 27. nóvember 2014.

Sigurður Hannesson segir hins vegar gjaldheimtuna mun meiri en kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. „Í Vogabyggð einni nema innviðagjöld borgarinnar hvorki meira né minna en fimm milljörðum,“ segir Sigurður.

„Mér finnst þetta bera keim að vanhugsaðri verktakagræðgi. Þarna er um að ræða lóðir sem voru seldar með mjög skýrum kvöðum um að taka þátt í innviðakostaði á svæðinu,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þegar Fréttablaðið innti hann eftir viðbrögðum við stefnunni.

„Þetta hefur gengið vel, hverfið er eftirsótt og vinsælt. Íbúðirnar seljast vel. Það að verktakar stígi þá fram, vilji hirða allan ágóðann en senda reikninginn af öllum innviðunum, þvert á það sem samið var um, á borgarbúa og borgarsjóð, það gengur ekki upp,“ segir Dagur.

„Fyrir liggja skýrir samningar sem gerðir voru áður en ráðist var í uppbyggingu hverfisins og voru forsenda þess að hægt var að fara í uppbyggingu á svo metnaðarfullum og veglegum innviðum. Þetta lá fyrir þegar þessar verktakar keyptu byggingarréttinn. Það lá algjörlega fyrir hvað þeirra hlutur hvers og eins væri, og það hafði áhrif á það sem þeir borguðu fyrir byggingarréttinn.“