*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 5. maí 2018 13:09

Borgir einkennast af vaxtarverkjum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir eftirsóttar borgir einkennast af vaxtarverkjum. Stóra kosningamálið er hvort borgin vaxi inn eða út.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið viðriðinn borgarmálin frá árinu 2001. Hann tók sjöunda sæti á lista  Reykjavíkurlistans að áeggjan Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra. Á þeim tímapunkti var hann á leiðinni til Svíþjóðar í sérfræðinám í smitsjúkdómalækningum. „Þegar hún hafði samband við mig þá þvertók ég fyrir þetta því ég var með allt önnur plön. Svo er ég að velta þessu fyrir mér og ég og konan mín, Arna, ákváðum bara að prófa þetta. Við vorum hvort eð er á krossgötum. Og hér er ég,“ segir Dagur.

„Ég hef það fyrir reglu að vera alltaf með einhvers konar plan fyrir næstu fimm ár en vera tilbúinn að breyta því á einum degi. Það býr til ákveðið æðruleysi.“ Finnst þér margt hafa breyst í borginni á þessum tíma? „Já, hún er orðin miklu alþjóðlegri og fjölbreyttari. Það er miklu meira framboð á menningu, veitingastöðum og áhugaverðum hlutum. Háskólarnir hafa eflst mjög mikið og fyrirtækjaumhverfið er miklu fjölbreyttara. Stóra breytingin er kannski sú að Reykjavík er komin mikið meira á kortið. Ég finn þetta mjög mikið í samskiptum við erlenda borgarstjóra. Það tengist að einhverju leyti almennum áhuga á Íslandi. Fólk hefur mikinn áhuga á því hvernig við komumst út úr hruninu,“ segir Dagur.

„Borgin spilar almennt mikið stærra hlutverk í því en fólk áttar sig almennt á. Ferðaþjónustan er mjög mikið afl á bak við hagvöxt og fjölgun starfa á Íslandi en 95% ferðamanna koma til Reykjavíkur og 80% fyrirtækja í ferðaþjónustu eru rekin héðan. Það sem gerir íslenska ferðaþjónustu að heilsársferðaþjónustu eru borgarferðir – Reykjavík sem vörumerki. Ég held að Jón Gnarr eigi líka svolítið í þessu. Hann verður ótrúlega þekktur sem borgarstjóri og hans saga er ótrúlega þekkt líka. Á sama tíma og ótal Evrópulönd og fleiri lönd kjósa hægri-þjóðernissinna eftir umrótið sem verður eftir fjármálahrunið þá kjósum við Jón Gnarr, sem kemur á ró og festu í stjórn borgarinnar,“ segir Dagur og brosir breitt.

Frá 2006 til 2010 sátu fjórir borgarstjórar, þeirra á meðal Dagur sjálfur í 100 daga og þrír borgarstjórar sem nutu stuðnings Sjálfstæðisflokks, Frjálslynda flokksins eða Framsóknarflokksins á einhverjum tímapunkti á kjörtímabilinu. „Svo tökum við við árið 2010. Þá er fjárhagurinn gjörsamlega á hliðinni. Fjármögnunargatið í Orkuveitu Reykjavíkur var 50 milljarðar, gat sem þurfti að loka á fimm árum. Í borgarsjóði voru þetta fimm milljarðar. Okkar beið því ekkert annað en hagræðing og niðurskurður,“ segir Dagur og vísar í sömu andrá til nýbirts ársreiknings borgarinnar sem hann segir sýna allt aðra mynd.

„Þar er afgangur upp á 28 milljarða í samstæðunni (A og B hluta) og fimm milljarða í borgarsjóði. Þetta er ekki síst vegna þess að við erum á einhverju mesta uppbyggingarskeiði borgarinnar. Þessi uppbygging fer eftir allt öðrum brautum en fyrri uppbyggingarskeið á Íslandi. Áður hafa þetta verið stök risaverkefni eins og til dæmis Kárahnjúkavirkjun. Núna erum við að tala um fjárfestingar- og uppbyggingarskeið í íbúðum og húsnæði sem er að rísa um allt, ekki bara í einu nýju hverfi heldur á fjölda þéttingarreita.“ 

Borgarþróunin verður stærsta kosningamálið

Hvað er að þínu mati mikilvægasta málið í þessum kosningum?

„Mér finnst skerast mjög í odda spurningar um hvert borgin eigi að þróast. Á hún áfram að stefna að því að þróast inn á við í græna átt með áherslu á lífsgæði og skólamál og velferð eða erum við að fara í kjörtímabil þar sem stefnan verður að þróa byggðina út á við með samgöngur sem byggja á að fólk kaupi fleiri og fleiri bíla og reyni að komast eftir stofnbrautunum okkar með sama hætti og nú. Það væri í raun afturhvarf til fortíðar og yrði býsna dramatísk breyting. Þrátt fyrir allt er mikil sátt um mjög margt sem er gert í borginni en þarna sýnist mér skerast hraustlega í odda.“

Upplifirðu að þú sért í miðri á með borgina?

„Algjörlega, ég upplifi það og er  ennþá að hitta fólk sem hefur lesið að það sé ekkert að gerast í húsnæðismálum og að það sé engin þróun og fjárfesting – jafnvel þótt hér séu byggingarkranar á öðru hverju horni. Verkinu er ekki lokið. Nútímaborgir sem eru eftirsóttar einkennast af vaxtarverkjum. Galdurinn við að vera í borg og stjórna borg er að átta sig á því að borgir ganga út á samskipti. Hlutverk borgaryfirvalda er að tryggja að þau séu góð og friðsamleg og að þar sé öryggi og sæmileg velmegun. Það hefur okkur tekist á undanförnum árum. Stóra verkefnið framundan er að fá hér heilbrigðari húsnæðismarkað þegar þessari gríðarlegu spennu sem hefur verið eftir algjört frost á árunum eftir hrun linnir og að tryggja að allir eigi þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: kosningar Dagur B. Eggertsson x18