*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 11. janúar 2021 10:18

Borguðu yfir 6 milljarða í bætur

Atvinnuleysisbætur hækkuðu um mánaðarmótin í yfir 300 þúsund krónur á mánuði, og hækka aftur næstu mánaðarmót.

Ritstjórn
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Haraldur Jónasson

Síðustu mánaðamót greiddi Vinnumálastofnun 6,2 milljarða króna í atvinnuleysisbætur, að því er RÚV greinir frá, en um áramótin hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur í 307.430 krónur og tekjutengdar bætur mest í 472.835 krónur.

„Og svo mun það hækka töluvert fram á vor því að það voru vísitöluhækkanir á bótunum um áramót sem koma til framkvæmda næstu mánaðamót,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Unnur segir vart hægt að tala um þróun í atvinnuleysi hér á landi með tilkomu kórónuveirufaraldursins. „Þetta hrundi eiginlega bara á einni nóttu.“ Eins og Viðskiptablaðið sagði frá rétt fyrir jól voru nærri 15 þúsund manns atvinnulausir í nóvember, eða 7,1% vinnuaflsins.

Samt sem áður segja nýjar tölur úr starfaskrá Hagstofunnar að um 2.800 laus störf hafi verið á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, eða 1,3% starfa á vinnumarkaði þar sem um 203.900 störf eru.

Það er fækkun um 100 laus störf frá þriðja ársfjórðungi, en fjölgun um 300 störf frá sama tíma fyrir ári. Í marsmánuði síðastliðnum fjölgaði fólki á atvinnuleysisbótaskrá um 4.500 manns og svo um 2.200 manns í apríl.

Á sama tíma fóru hins vegar 33 þúsund manns á hlutabótaskrá, svo að í vor voru um 50 þúsund einstaklingar á bótum á einn eða annan hátt, en svo fækkaði þeim hratt sem voru á hlutabótum þegar skilyrðum þeirra var breytt segir Unnur.