Borgun hefur svarað fyrirspurnum Landsbankans sem sendar voru til borgunar fyrir síðustu helgi.

Í fyrirspurn Landsbankans var annars vegar spurt hvort að upplýsingar hafi legið fyrir á þeim tíma, sem kynningarfundir voru haldnir vegna fyrir hugaðrar sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun, um rétt Borgunar til söluhagnaðar ef af sölu Visa Europe yrði. Hins vegar var spurt um hvað fjárhæð muni koma í hlut Borgunar vegna sölunnar og hver stór hluti verði rakinn til rekstrarsögu Borgunar fram til sölu á hlut Landsbankans á Borgun.

Borgun segist hafa verið leyfishafi, Principal member , í Visa Europe frá árinu 2010 en það er forsenda þess að Borgun geti sinnt þeim viðskiptum sem félagið stundar, og það sé vel kunnugt öllum þeim sem að koma að kortaviðskiptum. Aðild Borgunar að Visa Europe hafi verið kynnt á kynningarfundum, sem voru tveir talsins. Borgun segist ekki hafa haft neina ástæðu til þess að ætla að bankinn væri grandlaus um valréttinn.

Stjórnendur seldu

Borgun segist einnig ekki hafa metið eignarhlutinn í Visa Europe sem veruleg verðmæti, enda ekki ástæða til annars fyrr en nú. Félagið hafi ekki búið yfir upplýsingum um hvenær né á hvaða verði visa Europe yrði mögulega selt fyrr en salan var gerð opinber þann 2. nóvember 2015. Hlutdeild Borgunar í söluandvirðinu varð síðan ljós með bréfi Visa Europe þann 21. desember sl. Borgun bendir einnig á að í ágúst 2015 hafi BPS ehf., eignarhaldsfélag í eigu stjórnenda Borgunar selt umtalsverða hlut sinni í Borgun til  Eignarhaldsfélags Borgunar slf þar sem ekki var tekið tillit til umrædds valréttar né gerður fyrirvari um hlutdeild í honum.

Hlutdeild Borgunar

Borgun segir að greiðsla fyrir hlutinn verði þrískipt:

  • Eingreiðsla í peningum, en vænt greiðsla verður 33,9 milljónir evra, eða ríflega 4,8 milljarðar króna.
  • Forgangshlutabréf í Visa Inc. sem verða ekki skráð á markað. Visa Inc mun meta bréfin einhliða árið 2020. Miðað við verð bréfanna á kaupdegi Visa Eurpope, í nóvember sl., þa´eru verðmæti þeirra 11,6 milljónir evra.
  • Afkomutengd greiðsla sem mun taka mið af starfsemi Visa Europe á næstum 4 árum, greiðslan verður greidd á árinu 2020.

Með einhverri óvissu mun Borgun því færa upp eignarhlut sinn í Visa Europe um 38,6 milljónir evra, eða 5,5 milljarða króna. Borgun segir einnig að meginhluta hagnaðarhlutdeildarinnar megi rekja til rekstrarsögu Borgunar síðstu 18 mánuðina fyrir sölu Visa Europe.