Heildarafkoma Borgunar var 6.968 milljónir króna árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka sem birtur var fyrir skemmstu. Árið 2014 var heildarafkoma Borgunar 1.316 milljónir og fimmfaldaðist afkoman því milli ára.

Stærstur hluti af heildarafkomu Borgunar felst í 5.445 milljóna króna færslu vegna samkomulags um yfirtöku Visa á Visa Europe, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Hagnaður af reglulegri starfsemi Borgunar var 1.523 milljónir króna, sem er 16% aukning frá árinu á undan.

Bókfært virði eigin fjár Borgunar var 4.365 milljónir króna í lok árs 2014, en í lok árs 2015 var það 10.534 milljónir. Eignir Borgunar námu 35.740 milljónum króna í lok síðasta árs.