Greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor fengu að minnsta kosti 11 milljarða króna greiðslu vegna kaupa Visa Inc. á hlut fyrirtækjanna í Visa Europe. Kemur þetta fram í frétt DV um málið.

Hærri en gert ráð fyrir

Voru greiðslurnar hærri en gert var ráð fyrir upphaflega, þegar tilkynnt var um yfirtökuna í nóvember í fyrra.

Var það vegna þess að til að koma til móts við athugasemdir samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins við samrunanum var ákveðið að ekki yrði úr að hluti af greiðslunum tæki mið af afkomu af starfssemi fyrirtækisins í Evrópu næstu fjögur árin.

Íslenska ríkið hagnast mest

Íslenska ríkið mun hagnast mest á sölunni, en stærsti einstaki hluthafi Borgunar er Íslandsbanki, með um 63,5% eignarhlut. Jafnframt mun stærsti hluti verðmætaukningar sem verða til vegna greiðslna Visa Europe til Arion banka skila sér til ríkisins að lokum vegna afkomuskiptasamnings við kröfuhafa slitabús Kaupþings.

Að auki fær Landsbankinn hluta af ágóðanum vegna fyrirvara þess efnis sem settur var þegar bankinn seldi 38% hlut sinn í Valitor til Arion banka í árslok 2014. Íslandsbanki er 100% í eigu ríkisins, Landsbankinn 98% og Arion banki 13%.

Verðmæti Borgunar þrefaldast síðan selt

Virði þess hlutar sem Landsbankinn seldi stjórnendum og fjárfestum í Borgun á 2,2 milljarða króna hefur þrefaldast síðan salan fór fram í nóvember 2014. Er talið að verðmæti þeirra sé um 6 til 8 milljarðar í dag.

Ekki var sams konar fyrirvari gerður við sölu Borgunar líkt og var gerður síðar við sölu hlutarins í Valitor.