Greiðslumiðlunarfyrirtækið Borgun tapaði alls 828 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Tapið jókst um ríflega 250 milljónir króna miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er meðal þess sem lesa má úr hálfsársuppgjöri Íslandsbanka.

Í uppgjörinu kemur fram að tekjur félagsins hafi numið tæplega 1,1 milljarði króna og hafa þær dregist saman um tæplega 200 milljónir króna milli ára. Gjöld drógust að sama skapi saman en tap fyrir skatta var sambærilegt og á sama tíma í fyrra, 838 milljónir króna samanborið við 718 milljónir króna þá.

Íslandsbanki átti á tímabilinu 63,5% hlut í Borgun en endanlega var gengið frá sölu á hlutnum til Salt Pay í byrjun þessa mánaðar. Upphaflega stóð til að kaupverð fyrir hlutinn yrði 35 milljónir evra en vegna heimsfaraldursins var það lækkað niður í 27 milljónir evra. Hluti af afslættinum, sem samsvarar tæplega 1,3 milljörðum króna, var nýttur til hækkunar á hlutafé Borgunar.

Í uppgjörinu nú kemur fram að salan muni koma fram í bókum bankans á þriðja ársfjórðungi og að áhrif hennar á starfsemi og fjárhag bankans verði takmörkuð.