Borgun hf. tapaði 972 milljónum króna á síðasta rekstrarári en tap fyrir nýtingu á yfirfæranlegu skattatapi nam 1,2 milljörðum króna. Þetta má lesa úr ársreikningi Íslandsbanka hf.

Afkoma félagsins er þó skárri heldur en árið 2018 en þá nam tap ársins 1.069 milljónum króna. Tap af rekstri nam þá ríflega 1,3 milljörðum króna. Vaxtatekjur nú námu 872 milljónum króna og drógust saman um 150 milljónir króna milli ára. Þóknanatekjur námu 1,7 milljarði króna og jukust um 600 milljónir króna frá árinu 2018. Eignir lækkuðu um 6,2 milljarða króna, nema 22,3 milljörðum króna, og skuldir lækkuðu úr 22,2 milljörðum króna í 15,8 milljarða.

Sjá einnig: Tapað tíu milljörðum á tveimur árum

Íslandsbanki á 63,5% hlut í Borgun en eignarhlutur félagsins hefur verið til sölu frá því í janúar 2019. Viðræður hafa staðið yfir við hugsanlega kaupendur en enn er háð töluverðri óvissu hvort af sölu verði. Í ársreikningnum er eignarhluturinn ekki færður sem eignir til sölu af þeim sökum.

Fjallað var um málefni Borgunar, auk kortafyrirtækjanna Valitor og Kortaþjónustunnar, í Viðskiptablaðinu um miðjan síðasta mánuð. Félagið hagnaðist um átta milljarða árið 2016 en ári síðar nam hann 350 milljónum króna. Meðal þess sem hefur haft áhrif á félagið eru minni umsvif erlendis eftir að það fékk skömm í hattinn frá Fjármálaeftirlitinu.