*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 23. ágúst 2020 16:04

Borgun varar við fjársvikum

Yfir standa svikatilraunir með tölvupósti og SMS-skilaboðum, hafi fólk brugðist við er mælt með að hafa samband við Borgun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Borgun varar við yfirstandandi tilraunum til fjársvika í nafni félagsins. Bæði hafa þær farið fram með tölvupósti og SMS-skilaboðum sem Íslendingum hafa verið send. Félagið hefur ekki orðið fyrir tölvuárás heldur er um að ræða svikatilraun þar sem nafn og merki fyrirtækisins er notað í blekkingarskyni.

Borgun vill árétta að fyrirtækið biður aldrei um kortaupplýsingar í tölvupósti, í gegnum sms eða með símtali. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

„Um er að ræða svikatilraunir með tölvupósti og SMS-skilaboðum sem Íslendingum hafa verið send og látin eru líta út fyrir að komi frá Borgun. Í skilaboðunum er sagt að móttakandi hafi fyrir mistök borgað kortareikninginn sinn tvisvar sinnum og að korti viðkomandi hafi því verið lokað. Fólk er næst hvatt til að heimsækja vefsíðu og gefa upp þar kortaupplýsingarnar sínar til að opna kortið að nýju og fá ofgreiðsluna endurgreidda,” segir í tilkynningunni.

Hafi fólk brugðist við skilaboðunum er mælt með að hafa umsvifalaust samband við Borgun.

Stikkorð: Borgun fjársvik