Ali Mazanderani, stjórnarformaður Salt Pay, sem í sumar eignaðist Borgun, segir að greiðslumiðlunarfyrirtækin verða að horfa fram á við, leggja eldri arfleifð og taka tækninni opnum örmum. Viðskiptavinurinn og starfsfólk verði í brennidepli og á meðan árangur náist þar sé hægt að horfa fram hjá afkomutölum um eitthvert skeið.

Það er óhætt að fullyrða að bakgrunnur Mazanderani sé ekki jafn einsleitur og margra annarra. Hann er fæddur í Bandaríkjunum en faðir hans á rætur að rekja til Íraks og móðir hans til Skotlands. Um miðjan tíunda áratug fluttist fjölskyldan og tíu barna hópur þeirra á búgarð í Suður-Afríku. Mazanderani lauk námi í hagfræði frá háskóla í Pretoria, fór þaðan í framhaldsnám til Oxford og LSE og hefur að auki numið í Frakklandi og Sviss.

Úr námi lá leiðin í stefnumótunarráðgjöf og þaðan í bankageirann. Um skeið var hann hjá breska sjóðnum Actis – sá er með meira en tíu milljarða dollara í stýringu hjá sér – og þar kviknaði áhugi hans á fjártækni og félögum sem stefna að því að hagnýta upplýsingar til að auka skilvirkni í greiðslugeiranum.

„Fyrir nokkrum árum var ég í fríi á Íslandi milli jóla og nýárs. Það stóð til að við myndum verja áramótunum á Snæfellsnesi en sökum veðurs urðum við áfram í Reykjavík. Þegar við vorum á akstri rak ég augun í skilti frá CreditInfo og kannaðist við nafnið á félaginu frá því að það hafði tekið þátt í útboði í Asíu um að sinna greiðslumatsþjónustu þar. Félag sem ég tengdist, Compuscan, var einnig þátttakandi í útboðinu og ég hugsaði með mér hvernig það mætti vera að félag á Íslandi væri í samkeppni við suðurafrískt félag um viðskipti í Asíu,“ segir Mazanderani.

Hefur komið víða við

Frí á Íslandi hafi því orðið kveikjan að áhuga hans á viðskiptum á Íslandi. Í gegnum kollega hefði hann fengið netfangið hjá Reyni Grétarssyni, stofnanda CreditInfo, og komið á fundi með honum. Í raun hafi hann bara labbað inn á skrifstofur félagsins og í kjölfar þess hafi Actis fjárfest í félaginu. Sjóðurinn á nú fimmtungshlut í því og um tíma átti Mazanderani sæti í stjórn félagsins. Síðan þá hafi hann hætt störfum hjá Actis en hann sitji enn í stjórnum nokkurra félaga sem hann hafi fjárfest í á árum áður. Meðal félaga sem hann hefur komið nálægt er Network International en Mazanderani á sæti í stjórn félagsins sem er skráð í FTSE og partur af FTSE250 vísitölunni. Þá er hann einnig í stjórn StoneCo en félagið, sem er stærsta greiðslumiðlunarfyrirtæki Suður-Ameríku, er skráð á markað í New York.

„Þegar ég fjárfesti í StoneCo kynnist ég Eduardo [Pontes, stofnanda þess] en fyrirtækið var þá miklu, miklu minna. Hann flutti síðar meir til Evrópu og þar fórum við að leggja grunninn að því að sameina reynslu okkar og krafta og stofna evrópskt fyrirtæki í þessum geira sem nýtti fjártækni í störfum sínum. Þar með varð hugmyndin að Salt Pay til,“ segir Mazanderani.

Frá handavinnu til sjálfvirkni

Í sumar var sagt frá því að Salt Pay hefði keypt hluti Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. og  Íslandsbanka í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun. Í júlí lá fyrir það mat Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands að nýir eigendur væru hæfir til að fara með virkan eignarhlut í félaginu og var þá hafist handa við að móta framtíðarsýn félagsins. Salt Pay er með starfsemi í um tíu löndum Evrópu auk Suður-Afríku. Ákveðið var að hafa ákveðið hjarta starfseminnar á Íslandi þar sem samfélagið hér sé mjög tæknimiðað og taki breytingum opnum örmum. Á döfinni sé meðal annars að ýta úr vör hér á landi forritinu YoYo, það hefur áður verið brúkað bæði í Bretlandi og Suður-Afríku, sem gerir einmitt þetta. Viðskiptavininum stendur til boða að veita söluaðila upplýsingar um sig og sína kauphegðun en fær á móti betri kjör. Rekstraraðilinn getur síðan nýtt upplýsingarnar til að vita meira um sinn kúnnahóp og við stefnumótun.

„Við viljum taka Borgun frá því að vera aðeins einhvers konar bakendaþjónusta fyrir banka yfir í að vera brautryðjandi og þjónustumiðað evrópskt fjártæknifyrirtæki þar sem kúnninn er í fyrirrúmi. Í Evrópu er frjálst flæði vöru og þjónustu og staðan er þannig að við erum ekki aðeins að keppa við félög innanlands. Það er ekkert leyndarmál að geirinn hefur verið að tapa peningum og ekki verið sjálfbær. Til að verða samkeppnishæfur á opnum markaði þá verðurðu að aðlagast, stíga skref fram á við og sjálfvirknivæða ferla sem áður voru handvirkir,“ segir Mazanderani.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .