Borið hefur á uppsögnum innan fasteignageirans að undanförnu. Hafa fasteignasalar ítrekað reynt að fá fund með félagsmálaráðherra en án árangurs. Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða m.a. í þágu neytenda.

Mjög lítil sala hafi verið á fasteignum og verið er að hagræða með margþættum aðgerðum. „Menn hafa þungar áhyggjur af stöðu mála og ekki bætir úr skák að Íbúðalánasjóður er í hálfgerðu uppnámi," segir Grétar. Þessi samdráttur kemur sér illa fyrir fjölda fólks sem starfar að fasteignamálum. Hann segir að fasteignakreppa hafi víðtæk áhrif og að hún smitist einnig út í byggingariðnaðinn.

Á Íslandi eru um 270 skráðir fasteignasalar og segir Grétar að uppsagnir hafi enn ekki beinst að þeim, en aðrir starfsmenn á fasteignasölum hafi þó þurft að taka pokann sinn. Hann segir að í ljósi lítillar sölu sé erfitt að sjá hvort fasteignaverð hækki eða lækki, þær tölur sem birtist séu villandi og endurspegli því ekki ekki hinn raunverulega markað.

Dauður markaður

„Þetta er algerlega dauður markaður," segir Þórarinn Arnar Sævarsson, einn eigenda íslenska hluta fasteignasölukeðjunnar Remax, þegar hann er spurður út í fasteignamarkaðinn. Hefur Remax m.a. gripið til þeirra ráða að sameina stofur og minnka auglýsingakostnað. Verulega hefur verið dregið úr markaðssetningu til að spara kostnað.

Fasteignasölurnar hafa fundið fyrir þeirri kreppu sem verið hefur á fasteignamarkaði undanfarið.  Remax hefur ekki lagt í neina skipulega fækkun á starfsfólki. Fólk fær greitt miðað við sölu, og kemur minnkandi sala því fram í tekjulækkun starfsmanna. Þarf því hver starfsmaður að gera upp við sig hvort hann sé sáttur við afraksturinn.

Allar kreppur taka enda, og segir Þórarinn að 12 - 18 mánuðir séu eðlilegur tími fyrir fasteignakreppur. Heldur hann að kreppan muni standa í að minnsta kosti tvo mánuði í viðbót. Ástandið ætti því að fara að lagast í haust.