*

mánudagur, 27. janúar 2020
Erlent 23. júlí 2019 11:06

Boris Johnson nýr leiðtogi Íhaldsmanna

Tilkynnt var um niðurstöðu póstkosningar breska Íhaldsflokksins rétt í þessu sem ákveður nýjan forsætisráðherra.

Ritstjórn
epa

Boris Johnson, einn helsti talsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem áður var utanríkisráðherra Bretlands og borgarstjóri Lundúna hefur verið kjörinn nýr leiðtogi breska Íhaldsflokksins og mun hann taka við sem forsætisráðherra strax á morgun.

159.320 flokksmenn Íhaldsflokksins kusu í kjörinu, og þátttakan var um 87% kosningabærra. Fékk Jeremy Hunt tæplega 47 þúsund atkvæða en Boris Johnson rúmlega 92 þúsund atkvæða.

Tekur hann við af Theresu May starfandi forsætisráðherra sem tilkynnti um afsögn sína 24. maí síðastliðinn þegar úrsagnarsamningi hennar við ESB hafði verið hafnað í fjórða sinn af þinginu, þrisvar í beinni atkvæðagreiðslu, en eitt sinn dró hún samninginn til baka þegar ljóst var að hann yrði ekki samþykktur.

Bentu stuðningsmenn úrsagnar á það að með samningnum gæti Bretland ekki enn gert fríverslunarsamninga við önnur ríki, né slitið samningnum af sjálfsdáðun auk óásættanlegra ákvæða um sérreglur fyrir Norður Írland.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um er búist við að markaðir hafi þegar brugðist að mestu við sigri Boris með lækkandi styrk pundsins, en Boris hefur tekist á við Jeremy Hunt núverandi utanríkisráðherra um hvor þeirra verði fyrir valinu. Hunt er sá sem setið hefur hvað lengst sem heilbrigðisráðherra Bretlands.

Um160 þúsund almennir flokksmenn hafa kosningarétt í lokaumferð leiðtogavalsins. Í fyrri umferðum völdu þingmenn flokksins sína frambjóðendur og fækkuðu þeim í skrefum úr 10 sem tilnefndir höfðu verið til leiðtogaembættisins, þó Boris hafi haft mestan stuðning meðal almennra flokksmanna í gegnum alla baráttuna.

Boris er talinn hafa verið á báðum áttum með hvort hann ætti að vera með eða á móti úrgöngu úr Evrópusambandinu, en bæði keppinautur hans Jeremy Hunt og Theresa May voru á móti úrgöngu úr sambandinu. Síðan hafa þau bæði sagst hafa skipt um skoðun en einnig hafa þau deilt um úrsagnarsamning May sem felldur var fjórum sinnum í breska þinginu. Hunt studdi samninginn í öll skiptin meðan Boris gerði það í síðasta sinn.