Theresa May, nýkjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins sem tók við sem forsætisráðherra Bretlands af David Cameron í gær, hefur skipað Boris Johnson, fyrrum borgarstjóra í London og helsta talsmann úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu sem utanríkisráðherra.

Líklegur arftaki Camerons

Boris, eins og hann er iðulega kallaður í Bretlandi, var talinn líklegastur til að taka við af Cameron en dró sig úr baráttunni um að vera leiðtogi flokksins eftir að helsti bandamaður hans, dómsmálaráðherrann Michael Gove, lét af stuðningi við hann öllum að óvörum.

Ekki hefur verið gefið út hvort Gove haldi sínu embætti eða hvort hann fái nokkuð hlutverk í nýju ríkisstjórninni, en hann heltist fljótt úr lestinni í baráttunni um formannssætið.

Margir töldu pólítískan feril Boris Johnsson vera lokið, sérstaklega eftir að Andrea Leadsom, sem hann studdi til formennsku, dró framboð sitt til baka.

May sjálf lýst efasemdum um samningareynslu hans

Boris hlýtur að teljast allsérstakur valkostur sem utanríkisráðherra af mörgum, jafnvel Theresa May lýsti efasemdum um reynslu hans til „samningaviðræðna í Evrópu.“

„Mér finnst ég muna það að síðast þegar hann gerði samning við Þjóðverja, kom hann til baka með þrjár háþrýstivatnssprautur,“ sagði hún um samninga sem hann gerði meðan hann var borgarstjóri Lundúna.

Líkti Pútín við húsálf

Jafnframt hefur hann sagt ýmislegt í gegnum tíðina sem stuðað hefur marga þjóðarleiðtoga og stjórnmálamenn út um allan heim. Líkti hann eitt sinn Vladimir Putin forseta Rússlands við Dobby húsálf úr Harry Potter sögunum þó hann hafi jafnframt bætt við að hann væri ólíkt barnabókapersónuninni „einnig samviskulaus og stjórnsamur einræðisherra.“

Hann hefur jafnframt móðgað nálega hvern einn og einasta meiriháttar stjórnmálamann í Bandaríkjunum, þar á meðal Barack Obama forseta, George W. Bush fyrrum foresta, sem og forsetaframbjóðendurna Hillary Clinton og Donald Trump.

Auk þess hefur hann verið ásakaður um fordómafull skrif, jafnvel rasísk, þegar hann ræddi um mannætur og vélbyssur í skrifum um Lýðveldið Kongó og Papua Nýju Gíneu.

Fyndinn, hnittinn og skemmtilegur

Hins vegar hefur hann þótt fyndinn og skemmtilegur, skrifað marga hnittna pistla og verið vinsæll gestur í sjónvarpsþáttum eins og Have I Got News for You, sem hann jafnframt hefur stýrt, en einnig komið fram í þáttum eins og Top Gear, Parkinson, Breakfast with Frost og Question time.

Nýtur hann hylli meðal margra sem ekki eru taldir hefðbundnir stuðningsmenn breska Íhaldsflokksins, en jafnframt er hann mjög umdeildur meðal margra, innan og utan flokks.