Boris Johnson, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands og borgarstjóri í London, sem varð efstur í fyrstu umferð atkvæðagreiðslu þingmanna Íhaldsflokksins um hver muni leiða flokkinn, er sá frambjóðandi í kjörinu sem líklegastur er til að flykkja kjósendum um flokkinn.

Samkvæmt könnun Sunday Times skorar hann hátt fyrir ofan aðra frambjóðendur, þar sem 22% segjast vera líklegri til að kjósa Íhaldsflokkinn ef hann myndi leiða hann, en enginn annar frambjóðendanna mælist með meira en 8%.

Þingmenn velja 2 af 10 frambjóðendum

Nú fer fram flókin kosningabarátta innan Íhaldsflokksins um það hver muni taka við leiðtogahlutverkinu í flokknum af Theresu May sem tilkynntu um það 24. maí síðastliðinn að hún hyggðist segja af sér sem leiðtogi þegar nýr leiðtogi hefði verið valinn í hennar stað.

May, sem fjórum sinnum hefur lagt samning sinn um útgönguna fyrir breska þingið sem hafnaði honum í öll skiptin, hefur verið gagnrýnd fyrir það af stuðningmönnum útgöngu að hafa gefið frá sér helsta trompið í samningaviðræðunum við ESB, að mögulegt sé að ganga frá samningaviðræðunum og yfirgefa sambandið án samnings.

Boris, eins og hann er alla jafna kallaður, hefur hins vegar heitið því, líkt og Brexit flokkur Nigel Farage sem hlaut stórsigur í evrópuþingskosningum í landinu í lok síðasta mánaðar, að Bretland muni yfirgefa Evrópusambandið, með eða án samnings, þann 31. október næstkomandi, þegar núverandi framlenging rennur út.

Hægt verður að horfa á kappræður fimm frambjóðenda í slagnum á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 klukkan 18:30 á staðartíma, hálfsex á íslenskum tíma í kvöld. Boris hefur þó ákveðið að taka ekki þátt, því hann segir formið of þvælið, en hann muni hins vegar taka þátt í umræðum tveggja efstu manna í valinu sem eftir verða á fimmtudag.

Brexit baráttumenn í fyrsta og þriðja sæti

Þá mun einmitt koma í ljós hvaða tveir frambjóðendur 313 þingmenn flokksins munu heimila 160 þúsund almennum flokksmönnum að kjósa á milli í slagnum, sem fram fer með póstkosningu. Á fimmtudaginn, 13. júní fór fyrsta umferð kosninganna fram, þar sem valið var á milli 10 frambjóðenda sem hlotið höfðu tilnefningu í stöðuna, og þá duttu út þeir fjórir frambjóðendur sem ekki fengu stuðning að minnsta kosti 17 þingmanna Íhaldsflokksins á breska þinginu, það er þau Matt Hancock, Andrea Leadsom, Mark Harper og Ester McVey.

Samkvæmt FT hefur sú síðastnefnda lýst yfir stuðningi við Boris, en á næstu dögum er búist við að hann gefi upp hvort hann styðji Boris eða Michael Gove. Boris Johnson hlaut flest atkvæðin í fyrstu umferðinni, 87 eða 36,4%, en Jeremy Hunt, sem tók við af honum sem utanríkisráðherra Bretlands, sem var stuðningsmaður áframhaldandi veru í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni um málið 2016, hlaut næst flest atkvæðanna, 43, eða 13,7%.

Aðildarsinninn vill borgaradómstól valinn af handahófi

Hunt hefur, samkvæmt frétt BBC , heitið því að velja 50 þúsund almenna breska ríkisborgara til að mynda svokallaðan borgaradómstól til að leysa deilurnar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hann hefur lagt áherslu á að ná nýjum samningi við sambandið um útgönguna, en þó sagt að ef enginn möguleiki verði á því geti hann séð fyrir sér að gengið verði úr sambandinu án samnings.

Þriðji í röðinni var fyrrum samstarfsmaður Boris í baráttunni fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, og keppinautur um leiðtogastöðuna þegar Theresa May stóð uppi sem sigurvegari þrátt fyrir stuðning við áframhaldandi veru í sambandinu, áðurnefndur Michael Gove, en hann fékk 37 atkvæði eða 11,8%.

Þeir Dominic Raab, Sajid Javid og Rory Stewart fengu svo færri atkvæði. Eins og staðan er núna sýnir könnun YouGov að Brexit flokkur Farage er með þriggja prósentustiga meiri stuðning en báðir hefðbundnu stjórnarflokkarnir í landinu, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn.

Er könnunin sögð hjálpa Boris sem segir að nýr leiðtogi Íhaldsflokksins, og forsætisráðherra, verði að skila íbúum landsins því sem þeir samþykktu í atkvæðagreiðslunni á sínum tíma, útgöngu úr Evrópusambandinu, eða Brexit. Hins vegar sýna kannanir einnig að Boris er mjög umdeildur stjórnmálamaður í landinu, en 48% þeirra sem voru spurðir töldu hann ólíklegan til að sameina þjóðina.