*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Erlent 3. september 2019 18:13

Boris missir þingmeirihlutann

Með flutningi þingmanns íhaldsflokksins yfir í frjálslynda demókrata eykst vægi hótana Boris um þingkosningar.

Ritstjórn
Boris Johnson tók við sem forsætisráðherra Bretlands 24. júlí síðastliðinn, og var fagnað ákaft af starfsmönnum ráðuneytisins í aðsetri þess í Downingstræti 10.
epa

Þingmeirihluti Íhaldsflokksins og bandamanna þeirra í Lýðræðissinnaða sambandsflokknum á Norður Írlandi er fallinn eftir að þingmaðurinn Phillip Lee flutti sig yfir í Frjálslynda demókrata. Þar með er líklegra að verði af hótunum Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands um að boða til þingkosninga 14. október næstkomandi.

Er sú dagsetning einungis nokkrum dögum fyrir boðaða lokaatrennu um að ná samkomulagi við leiðtoga Evrópusambandsins um svokallaðan útgöngusamning, það er áframhaldandi gagnkvæman markaðsaðgang ESB og Bretlands, áður en Bretland gengur úr sambandinu 31. október næstkomandi.

Í mögulegum þingkosningum er ljóst að meginvíglínan verður milli þeirra sem hlynntir eru og á móti úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en þar sem bæði UKIP og Brexit flokkur Nigel Farage hafa heitið því að styðja við bakið á þingmönnum Íhaldsflokksins ef þeir eru tilbúnir að ganga úr sambandinu án samnings, er líklegt að úrgöngusinnar standi sameinaðir í einflokkskjördæmum landsins gegn bæði frambjóðendum verkamannaflokksins sem hafa verið blendnir í skoðunum og Frjálslyndra demókrata sem vilja halda áfram að vera í Evrópusambandinu.

Mun ekki sætta sig við veiklaða samningsstöðu

Eftir stendur að ríkisstjórn Boris Johnson gæti enn staðið af sér vantrauststillögu, sem halda þyrfti þá áður en þingfundi yrði slitið í næstu viku. Jafnframt er enn óljóst hvort boðað þingfrumvarp sem myndi skylda ríkisstjórnina til að fara fram á frestun úrgöngu landsins úr ESB ef forsætisráðherra myndi ekki ganga til samninga um útgönguna við sambandið.

Boris hefur sagt að hann myndi ekki láta neyða sig til samninga og þannig veikja samningsstöðu sína gagnvart sambandinu. Sagðist hann tilbúinn að boða til kosninga ef tillagan næði fram að ganga. Líklegt er að nauðsynlegur aukinn meirihluti tveggja þriðju hluta þingsins myndi kjósa að boða til kosninga, sér í lagi ef haft er í huga endurtekið ákall Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins um nýjar kosningar.

Sundurleitur hópur þyrfti að sameinast gegn Brexit

Til þess að samþykkja að halda atkvæðagreiðslu um tillöguna, og eða boða vantraust á ríkisstjórnina, þurfa allir 247 þingmenn verkamannaflokksins, 35 þingmenn skoska þjóðarflokksins, 15 þingmenn Frjálslyndra demókrata, 4 þingmenn velskra þjóðarflokksins, eini þingmaður Græningja og allir 20 sjálfstæðu þingmennirnir á breska þinginu að ná saman um að taka stjórnina yfir dagskrá þingsins.

Þá myndi bandalag uppreisnarmannanna gegn úrgöngunni úr ESB, sem sitja í mörgum flokkum, þurfa að virkja svokallaða reglu 24, en til viðbótar þarf þingforsetinn, John Bercow að heimila það. Hann er þó talinn líklegur til þess enda lýsti hann í síðustu viku áætlun forsætisráðherra um að taka þinghlé fram undir miðjan október sem forkastanlegum út frá stjórnskipun landsins.

Það er þó alls ekki víst að bandalaginu takist að ná sínu fram að mati FT, sem bendir á að hópur þingmanna bæði Change UK, sem er klofningsþingflokkur úr verkamannaflokknum, auk fleiri þingmanna flokksins, munu ekki geta hugsað sér að gefa Jeremy Corbyn leiðtoga flokksins til að geta orðið forsætisráðherra.

Auk þess gæti til að mynda Charlie Elphicke, fyrrum þingmaður Íhaldsflokksins sem vikið var úr honum eftir að hann var ákærður fyrir kynferðisbrot, enn kosið með ríkisstjórninni.