Þingmenn breska Íhaldsflokksins fylktu sér um Boris Johnson, fyrrum utanríkisráðherra og borgarstjóra Lundúna í forvali um leiðtogastöðuna i flokknum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa frambjóðendur einn af öðrum helst úr lestinni í forvalinu, sem fram hefur farið í fimm umferðum, og eru nú einungis tveir eftir sem almennir flokksmenn í Íhaldsflokknum geta nú valið á milli.

Hinn frambjóðandinn er Jeremy Hunt, sem kaus gegn útgöngu Bretlands úr ESB, en segist nú hafa snúist hugur og vera fylgjandi útgöngunni. Hann tók við utanríkisráðherraembættinu af Boris eftir afsögn hans í kjölfar tillagna Theresu May, fráfarandi leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands, um hvernig standa ætti að útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Boris, sem var einn helsti talsmaður útgöngunnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sagði þá að tillögurnar væru óásættanlegar, og kaus hann jafnframt í öll skiptin nema það þriðja og síðasta gegn seinni tillögum May um að samþykkja afarkosti ESB um viðskiptahætti ríkjanna í kjölfar útgöngunnar.

Trúverðug hótun um útgöngu án samnings

Nú leggur Boris áherslu á að Bretland verði að vera trúverðugt í hótuninni um að ganga úr ESB án samnings til að geta náð betri samningi, og því eigi núverandi framlengd dagsetning, 31. október næstkomandi, að standa.

Hlaut hann fyrir vikið atkvæði meirihluta þingmanna flokksins, eða 160 atkvæði af 313 í lokaumferð forvalsins, en Hunt hlaut 77 atkvæði. Hann hefur sagt að til greina komi að framlengja aðildina að ESB ef horfur eru á að samningar séu að nást.

Fyrrum keppinautur Boris um leiðtogastöðuna, frá því fyrir valdatöku ESB aðildarsinnans May, og samstarfsmaður í baráttunni fyrir úrgöngu úr sambandinu, umhverfisráðherrann Michael Gove, hlaut 75 atkvæði.

Boris segist hafa „the pizzazz“

Í kosningabaráttunni hefur Boris sagt að hann hafi það sem þurfi til, „the pizzazz“ upp á enska tungu, til að hrista upp í Brexit viðræðunum í Brussel og fylkja kjósendum Íhaldsflokksins um sig og stefnu flokksins í málinu.

Jafnframt hefur hann bent á getu sína til að sigra atkvæðagreiðslur meðal almennra borgara, en hinn umdeildi og hárprúði stjórnmálamaður nýtur einnig töluverðra vinsælda, en 62% meðlima flokksins hafa sagt hann eiga verða næsta leiðtoga Íhaldsmanna. Einungis 11% studdu þá Hunt, en könnunin var gerð fyrr í kosningabaráttunni.

Boris hefur tvisvar sigrað atkvæðagreiðslur almennra borgara í London um að verða borgarstjóri, en öfugt við stóran persónuleika Boris er Hunt sagður nákvæmur rólyndismaður, sem hafi reynslu og getu til að ná samningum við ESB án þess að skaða hagkerfið.

Pundið veikist samhliða risi Boris

Breska pundið hefur veikst undanfarna daga, sem sagt er í frétt Wall Street Journal vera að gerast samhliða risi Boris Johnson, og er það sett í samhengi við áhyggjur af því að sigur hans muni þýða að viðskiptatengsl við ESB rofni með tilheyrandi skaða fyrir breskt efnahagslíf.

Þó verður að taka fram að WSJ, líkt og flestir fjölmiðlar í Bretlandi studdu áframhaldandi aðild Bretlands að ESB og að veiking pundsins ætti að bæta samkeppnisstöðu landsins og auka eftirspurn eftir vörum þess, til skamms tíma.