Heilbrigðisstarfsfólk í Sýrlandi hefur þurft að taka þátt í hrottalegum lækningaraðferðum vegna þess hve laskað heilbrigðiskerfið er orðið í landinu. Farsóttir herja einnig á milljónir barna sem eru óvarin gegn margskonar lífshættulegum sjúkdómum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children.

Skýrslan sem kallast á ensku A devastating Toll: the Impact of Three Years of War on the Health of Syria’s Children, varpar ljósi á hrun heilbrigðiskerfisins í landinu og afleiðingum þess. Þar kemur fram að börn deyja ekki einungis af sárum sínum vegna átakanna, heldur einnig vegna sjúkdóma sem áður hefði verið hægt að meðhöndla eða koma í veg fyrir.

Hrun heilbrigðisþjónustu hefur margvíslegar birtingarmyndir:

  • Börn eru aflimuð vegna þess að lækningarstofur eru ekki búnar nauðsynlegum tækjum eða lyfjum fyrir viðeigandi meðferðir
  • Nýburar deyja í hitakössum þegar rafmagn fer af
  • Sjúklingar eru rotaðir með málmkylfum þar sem deyfi- og svæingalyf vantar
  • Sjúklingar fá blóðgjöf manna á milli sem stofnar lífi þeirra í hættu

„Þessi mannúðarkrísa er á stuttum tíma orðin að alvarlegri heilbrigðiskrísu,“ segir Roger Hearn, svæðisstjóri Save the Children. „Börn innan Sýrlands búa við grófar og frumstæðar aðstæður. Bara það að finna lækni er háð heppni. Að finna lækni með nauðsynleg tæki og lyf fyrir vieigandi meðferð er nánast óhugsandi. Þær örvæntingafullu aðferðir sem heilbrigðisstarfsfólk neyðist til að grípa til, til að halda lífi í börnum eru sífellt skelfilegri,“ bætir hann við

Nú eru 60% spítala í Sýrlandi skemmdir eða ónýtir. Næstum helmingur sýrlenskra lækna hefur flúið land. Í Aleppo, borg, sem ætti að búa yfir 2.500 læknum, eru 36 eftir. 93% sjúkrabíla landsins hafa verið skemmdir, þeim stolið eða eyðilagðir, á meðan fjöldi heilbrigðisstarfsmanna og annars læknastarfsfólks hefur verið drepinn, tekinn til fanga, eða hefur flúið land.

Barnaheill – Save the Children krefjast þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki einhljóma að veita mannúðarsamtökum tafarlausan aðgang inn í landið, og að börn og fjölskyldur þeirra fái aðgang að bólusetningum, mat, vatni, lyfjum og lífsnauðsynlegri aðstoð, hvar sem hennar er þörf.