Sjö þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um vöggugjöf handa öllum nýfæddum íslenskum börnum. Þingmennirnir eru Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Óttarr Proppé, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Björt Ólafsdóttir.

Nýbakaðir foreldrar fengju þá nokkurs konar barnsburðarpakka frá ríkinu, en hugmyndin er sótt til Finnlands. Gjöfin sé jafnframt táknræn, því á þennan hátt sé hver einstaklingur boðinn velkominn í þjóðfélagið.

„Barnsburðarpakkinn inniheldur allt sem ungabörn þurfa fyrstu mánuðina, svo sem föt, bleiur, sæng, dýnu, sængurver, samfellur, svefnpoka, útigalla, heilgalla, húfur og vettlinga, sokkabuxur og sokka, buxur og boli, handklæði, naglaklippur, hárbursta, tannbursta, hitamæli fyrir baðvatn, hitamæli fyrir barnið, smekki, lítið nagdót og bók fyrir barnið, auk þess sem kassann utan af vörunum má nýta sem rúm. Pakkinn inniheldur einnig nauðsynjavörur fyrir móður og föður barnsins, svo sem dömubindi, getnaðarvarnir, geirvörtukrem og brjóstapúða. Oftar en ekki eru fötin í pakkanum og kassinn utan um hann hönnuð af finnskum hönnuðum til að styðja við innlenda framleiðslu,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Þar er áætlað að árlegur kostnaður hins opinbera af verkefninu gæti numið 120-130 milljónum króna, en samkvæmt tölum frá Finnlandi kostaði hver barnsburðarpakki þar í landi 26.000 krónur. Á Íslandi fæddust 4.375 börn árið 2014 samkvæmt tölum hagstofunnar.

Kemur fram í tillögunni að með þessari vöggugjöf yrði nýfæddum börnum tryggður nauðsynlegur útbúnaður og foreldrum yrði spöruð fyrirhöfn og peningar.