Undirritaður hefur verið viðaukasamningur milli Jarðborana hf. og Orkuveitu Reykjavíkur um jarðboranir á Hellisheiði og Hengilssvæði. Um er að ræða einn stærsta samning sinnar tegundar í borverkefni hér á landi en boraðar verða 15 háhitaholur og er upphæð samningsins er 3,7 milljarðar króna segir í fréttatilkynningu Jarðboranna.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir í tilkynningunni að samningurinn sé ánægjulegur áfangi á leið Orkuveitunnar til enn frekari öflunar vistvænnar orku. Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, segir einnig í tilkynningunni viðfangsefnið í senn mikilvægt og afar krefjandi því borun eftir háhita á Íslandi, þar sem aðstæður eru hvað örðugustar í veröldinni, krefjist mikillar reynslu og hæfni.

Við verkefnið verður beitt svonefndri stefnuborunartækni sem Jarðboranir hafa þróað í samstarfi við alþjóðlega fyrirtækið Baker Hughes Inteq, þannig að henti við íslenskar aðstæður. Stefnuborun gerir boranir umhverfisvænni og enn líklegri til árangurs segir í fréttatilkynningu Jarðboranna.