Danska viðskiptablaðið Börsen hefur veitt fyrirtækinu „Trækompagniet" sem er í eigu hjónanna Frosta Þórðarsonar og Helgu Hjördísar Sigurdardóttur sérstaka viðurkenningu fyrir góðan rekstur og mikinn vöxt síðustu árin. Árlega heiðrar Börsen þau fyrirtæki sem hafa skarað framúr í danska viðskiptalífinu og sýnt fram á mestan vöxt yfir fjögurra ára tímabil.

Í fréttatilkynniingu segir að árangurinn sé sérstaklega áhugaverður ef litið er á efnahagsástandið í Danmörku síðustu árin og hversu fá fyrirtæki hafa hlotið þessa viðurkenningu í ár. Trækompagniet sérhæfi sig í lúxus planka gólfum sem eru sér hönnuð fyrir viðskiptavininn. Meðal annars bjóði fyrirtækið upp á heimsins lengstu og breiðustu eikar planka, sérstaklega gerða til að þola gólfhita.

„Fyrirtækið hefur allt frá upphafi farið sínar eigin leiðir í hönnun og markaðssetningu á lúxus gólfum og verið leiðandi í nýsköpun og hönnun á sínu sviði. Frosti og Helga stofnuðu Trækompagniet fyrir 7 árum síðan og hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt allar götur síðan. Fyrirtækið hefur nú starfsemi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Trækompagniet er orðið vel þekkt á meðal arkitekta og sérstaklega þeim sem sérhæfa sig í hönnun á lúxus húsum fyrir vel stæða einstaklinga. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru margir heimsfrægir einstaklingar," segir í tilkynningunni.