Bank of Scotland og Glitnir hafa sölutryggt lánsfjármögnun að virði 533 milljónir punda (70 milljarðar íslenskra króna) til að styðja við kaup Baugs og fleiri fjárfesta á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Stjórn House of Fraser hefur mælt með kauptilboði Baugs í fyrirtækið að virði 350 milljónir punda, sem samsvarar um 46 milljörðum króna.

Lánsfjármögnunin, sem samanstendur einnig af millilagsláni, brúarláni og lánum til að styðja við framtíðarrekstur House of Fraser, mun líka verða nýtt til að endurfjármagna núverandi skuldir House of Fraser.

Baugur leiðir fjárfestahópinn, sem tekur þátt í yfirtökunni, en hann inniheldur einnig FL group, Sir Tom Hunter, Don McCarthy, Kevin Stanford, Stefan Cassar og Bank of Scotland.