Grunur leikur á að gæðaeftirlit flugvélaframleiðandans Boeing í framleiðsluferlinu á Boeing 737 MAX flugvélalínunni, hafi svo árum skiptir verið ábótavant. Þetta hefur The Wall Street Journal eftir heimildarmönnum sínum og segja þeir að sökum þessa gæti félagið hafa bakað sér meiri bótaábyrgð en áður var talið.

Segja heimildarmennirnir að yfirvöld hafi til rannsóknar hvort alvarleg öryggisvandamál hafi komið upp í Boeing 737 MAX flugvélum Boeing vegna ýmissra mistaka sem áttu sér stað í framleiðsluferli vélanna.

Ýmis vandamál sem komið hafa í ljós innan verksmiðju Boeing ku hafa vakið upp spurningar hjá rannsakendum málsins um hvort framleiðslureglum og öryggisatriðum hafi verið fylgt í hvívetna. Til að mynda fundust í helmingi tilfella aðskotahlutir, sem starfsmenn verksmiðjunnar höfðu óvart gleymt, í bensíntönkum og ýmsum öðrum hlutum þeirra Boeing 737 MAX véla sem bíða þess að vera afhentar eigendum sínum.