Sveitarfélögin bíða eftir lagabreytingu á lögum um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þannig að aðstoðin virki hvetjandi til þátttöku í virkniúrræðum. Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að greiddir verði 5 milljarðar króna í fjárhagsaðstoð í ár og á fyrstu sex mánuðum ársins kostar aðstoðin Reykjavíkurborg um 1.436 milljónir króna. Morgunblaðið greinir frá málinu.

„Það eru vísbendingar um að innan um séu einstaklingar sem misnota kerfið. Því miður kemur fólk sér á þessa syllu og kærir sig ekki um að fara af henni. Þetta er ömurlegur staður til að vera á. Einhverjir vilja vera þar og einhver misnotkun er í gangi. Með því að gera meiri kröfur um virkni og að fólk taki virkniúrræðum er um leið dregið úr misnotkun. Það er of mikill slaki gefinn í þessum málum,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir jafnframt í samtali við Morgunblaðið að borgin leggi mikla áherslu á að koma atvinnulausum í virkniúrræði til að auka möguleika á vinnumarkaði. Deilir hún jafnframt áhyggjum Sambands íslenskra sveitarfélaga af því að kerfið sé misnotað og telur mikilvægt að í lögum sé mögulegt að það hafi afleiðingar ef fólk hafnar vinnu sé það vinnufært, nema fyrir því liggi félagsleg eða málefnaleg rök.