*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 5. maí 2021 15:31

Bóta­krafa Hag­stofu­starfs­manns fyrnd

Manninum hafði verið sagt upp störfum árið 2015 fyrir að keyra kennitölur samstarfsmanna við staðgreiðsluskrá Skattsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í upphafi viku íslenska ríkið og Hagstofuna af bótakröfu fyrrverandi starfsmanns stofnunarinnar. Starfsmaðurinn fyrrverandi taldi sig eiga inni laun vegna ólögmætrar uppsagnar en því var hafnað þar sem möguleg krafa þótti fyrnt. Manninum hafði verið sagt upp störfum þar sem hann hafði gerst sekur um trúnaðarbrest í starfi að mati stjórnenda stofnunarinnar.

Í atvikalýsingu dómsins kemur ekki fram hvenær umræddur starfsmaður hóf störf hjá stofnuninni og þá hefur nafn hennar einnig verið afmáð. Samkvæmt atvikalýsingu má þó ráða að hann hafi starfað sem trúnaðarmaður Verkfræðingafélags Íslands á vinnustað sínum.

Leiðrétting 16.08: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var staðhæft að ríkissaksóknari hafi fellt sakamálarannsókn gegn manninum niður þar sem að ekki hafi verið brotið gegn persónuverndarlögum né almennum hegningarlögum með háttseminni. Hið rétta er að meint brot fyrndust í rannsókn. Texti fréttarinnar hefur verið leiðréttur í samræmi við það.

Í ágúst 2015 óskaði maðurinn eftir fundi með sviðsstjóra fyrirtækjasviðs og deildarstjóra hjá Hagstofunni. Þar lagði hann fram töflu sem sýndi upplýsingar um laun einstakra starfsmanna stofnunarinnar og taldi hann upplýsingarnar sýna að starfsfólk innan deildar hans nyti lakari kjara en starfsfólk annarra deilda. Sviðstjóri hafði í kjölfarið samband við hagstofustjóra, sem þá var staddur erlendis, og lét hann vita af því sem fram fór.

Keyrði kennitölur innri vefs saman við staðgreiðslugrunn

Tveimur dögum síðar, 27. ágúst, var haldinn fundur á ný með starfsmanninum. Upplýsti hann þá að hann hefði notað staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra, sem hann hafði aðgang að sem starfsmaður Hagstofunnar, til að sækja gögn um launagreiðslur stofnunarinnar. Kennitölur launþega hefðu verið brenglaðar í kerfinu en ekki kennitölur launagreiðanda. Hann hefði einfaldlega sótt nöfn og kennitölur starfsmanna af innra neti og síðan keyrt það saman við skránna. Þannig hefði hann græjað listann.

Í dóminum hefur nafn Hagstofunnar verið afmáð en hins vegar kemur þar fram að stjórnendur stofnunarinnar hafi talið háttsemi mannsins fela í sér trúnaðarbrot sem og brot gegn tilteknum ákvæðum laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Eftir fundinn hafi maðurinn verið sendur í vikuleyfi á meðan mál hans væri til skoðunar en áður en því lauk var honum sagt upp störfum þar sem brotið hefði verið svo alvarlegt að áminning kæmi ekki til greina.

Með bréfi í október 2015 var málinu vísað til ríkissaksóknara sem vísaði því áfram í lögreglurannsókn. Af atvikalýsingu má ráða að ekki hafi mikið púður verið sett í rannsóknina. Lögreglan tilkynnti manninum í janúar 2016 að hald yrði lagt á vinnutölvu hans og gögn á henni. Gögnin voru hins vegar ekki afhent lögreglu fyrr en í febrúar 2018 og maðurinn yfirheyrður í maí sama ár. Viðurkenndi maðurinn í skýrslutöku að hafa tekið listann saman en markmiðið með því hefði verið að færa sönnur á að Hagstofan mismunaði starfsmönnum í launakjörum eftir deildum.

Málið var síðan sent héraðssaksóknara í október 2019 og fellt niður skömmu síðar. Ákvörðun um niðurfellingu var staðfest af ríkissaksóknara í apríl á síðasta ári. Niðurfellingin byggði á því að ef um brot í starfi hefði verið að ræða þá hefði það fyrnst í rannsókn. 

Lögreglurannsókn ekki force majeure

Í kjölfar þess að málið var fellt niður hófst maðurinn handa við að stefna ríkinu vegna uppsagnarinnar. Krafðist hann alls rúmlega 17 milljón króna, auk dráttarvaxta, og 1,5 milljón króna í miskabætur. Kröfunni var beint að Hagstofunni þar sem hann taldi uppsögnina hafa verið ólögmæta og að ríkinu þar sem hann hefði mátt þola rannsóknaraðgerðir vegna sakamálsins. Áminning hefði þurft að vera nauðsynlegur aðdragandi uppsagnarinnar.

Ríkið krafðist á móti sýknu á grundvelli þess að hin umþrætta krafa væri fyrnd. Fyrningarfrestur hefði byrjað að líða við uppsögn í september 2015 og hún því fyrnst fjórum árum síðar. Maðurinn byggði sjálfur á því að hann hefði ekki getað farið af stað með málið fyrr en að ákvörðun um niðurfellingu máls lá fyrir, það hefði í raun verið „sérstakt og óvenjulegt tilvik“ í skilningi fyrningarlaganna, en ríkið taldi það ekki rétt. Aðeins almenn force majeure tilvik féllu þar undir.

Í niðurstöðu dómsins segir að meint krafa hefði stofnast við uppsögn og maðurinn hafi vitað af því. Til marks um það hafi hann sent kröfubréf strax í desember 2015. Þá var ekki fallist á það að yfirstandandi rannsókn hjá lögreglu hefði leitt til þess að ómögulegt hefði verið að rjúfa fyrningu. Kröfu um miskabætur, sem beint var að bæði íslenska ríkinu og Hagstofunni og byggði á mismunandi grunni hvað hvorn aðila varðar, var vísað frá dómi þar sem skilyrði fyrir samlagsaðild voru ekki uppfyllt. Málskostnaður var látinn falla niður.