Ríkislögmaður hafnaði í vikunni skaðabótakröfu héraðsdómarans Jóns Höskuldssonar héraðsdóma vegna skipunar í Landsrétt. Jón krafði ríkið um tugi milljóna í bætur í bréfi 21. desember en þeim var hafnað þar sem ekki væri fordæmi fyrir slíku.

Í kvöldfréttum RÚV , þar sem sagt var frá málinu, var greint frá því að ríkislögmaður hafi hins vegar fallist á að greiða Jóni 700.000 krónur í miskabætur í samræmi við nýleg dómafordæmi í málum vegna skipunar í Landsrétt. Jón var meðal þeirra 15 sem matsnefnd taldi hæfastan til að gegna embætti dómara við Landsrétt en var ekki skipaður í dóminn af Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Viðurkenningarkröfum Átráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, sem höfðuðu mál þar sem þeir töldu hafa verið gengið framhjá sér við skipun í Landsrétt var hafnað, þar sem þeir gátu ekki sýnt fram á hvert tjón þeirra væri. Þannig kom fram í dómi Hæstaréttar í fyrra að Ástráður hafi til að mynda ekki orðið við áskorunum um að leggja fram skattframtöl þriggja síðustu almanaksára, en ekki var talið að launaseðlar sem lagðir voru fram gæfu rétta mynd af heildartekjum hans af störfum sínum.

Í frétt RÚV segir hins vegar að Jón ætli að færa sönnur á tjón sitt með því að bera saman laun sín sem héraðsdómari við laun Landsréttardómara út starfsævi sína.