Eigandi bifreiðar, sem tjónaðist við þegar hún var dregin upp á veg eftir útafakstur, á rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu bjargvættar síns, það er lögbundinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar sem notuð var til að toga bílinn upp á veginn aftur. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Atvik málsins eru þau að í janúar 2020 var ökumaður á ferðinni skammt vestan Jökulsárlóns þegar bifreið hans tók að skauta á veginum. Endaði bifreiðin utan vegar og sat þar föst. Áður en langt um leið bar aðra bifreið að vettvangi og bauðst ökumaður hennar til að losa bílinn úr skaflinum og koma honum aftur upp á veg.

Taug var fest á milli bílanna en þegar átökin hófust gerðist það að fasti bíllinn laskaðist nokkuð í öllum hamaganginum. Fór eigandi hennar fram á það að tjónið sem af hlaust yrði bætt úr lögbundinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar sem notuð var til að toga hann aftur upp á veginn.

Það hefur lengi verið meginregla í íslenskum rétti að eigandi bifreiðar sem dregur annað ökutæki er skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem af hlýst. Í nýjum umferðarlögum, sem voru samþykkt árið 2019, er þó undanskilið tjón á ökutæki sem dregið er af öðru ökutæki vegna björgunarstarfa ef sannanlegt samþykki eiganda liggur fyrir.

Í upphaflegu frumvarpi til nýrra umferðarlaga var lagt til að sú undanþága næði aðeins til bifreiða í eigu björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar en í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar var gildissviðið útvíkkað. Texti laganna hljóðar upp á „ökutæki vegna björgunarstarfa“ en í nefndaráliti var það skýrt sem bifreiðar viðbragðsaðila á borð við lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkrabíla.

„Texti sjálfs lagaákvæðisins endurspeglar ekki með skýrum hætti þann löggjafarvilja sem fram kemur í nefndarálitinu sem er óheppilegt […]. Eins og hér stendur á verður að skýra síðari málsliðinn í samræmi við skýrt álit efnahags- og viðskiptanefndar,“ segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Umrædd undanþága nær því að eins til bifreiða í eigu björgunarsveita eða viðbragðsaðila. Þar sem bjargvættur mannsins var ekki á slíkum bíl, heldur aðeins hefðbundnum bíl, verður tryggingafélag hans að bæta tjón það sem af björgunaraðgerðinni hlaust.