Sveitarfélagið Hornafjörður var nýverið dæmt skaðabótaskylt gagnvart félaginu Ice Lagoon ehf. vegna afgreiðslna á umsóknum félagsins um stöðuleyfi við Jökulsárlón við Breiðamerkursand um tíu ára skeið. Lögmaður félagsins segir stórmál að sveitarfélag hafi hagað sér með samkeppnishamlandi hætti í hátt í áratug.

Jökulsárlón er ein af helstu náttúruperlum landsins og af þeim sökum virkað sem segull á ferðamenn um langt árabil. Ferðaþjónusta á lóninu hófst á miðjum níunda áratug síðustu aldar þegar byrjað var að bjóða upp á siglingar á því. Árið 2011 hóf Ice Lagoon síðan slíka starfsemi á sama stað í samkeppni við þá sem fyrir voru.

Austurbakki lónsins hefur verið nýttur í ferðaþjónusturekstur en vesturbakkinn hefur talist innan þjóðlendu frá 2006. Það er staðsett á jörð er nefnist Fell og var lengi vel í sameign fjölda fólks en þeir stofnuðu með sér Sameigendafélagið Fell. Hluti jarðarinnar, rétt tæpur fjórðungur, var í eigu einstaklings, sem stóð utan þess félags, sem keypti fyrrnefndan ferðaþjónusturekstur árið 1999. Þegar Ice Lagoon hóf starfsemi sína hlaut það starfsleyfi frá Ferðamálastofu og Samgöngustofu. Hins vegar skorti félagið stöðuleyfi fyrir báta sína en leyfisveitandi þar er Sveitarfélagið Hornafjörður.

Árið 2010 hófst Ice Lagoon handa við að verða sér úti um slíkt leyfi. Bæjarráð samþykkti umsóknina með fyrirvara um að samþykki allra landeigenda lægi fyrir. Þótt leyfi hafi ekki legið fyrir hóf Ice Lagoon starfsemi en ári síðar fór lögmaður samkeppnisaðilans fram á að henni yrði hætt þar sem hún væri stunduð í óleyfi.

Deilur vegna þessa héldu áfram eftir því sem áratugurinn leið. Meðal annars skoraði sveitarfélagið á Ice Lagoon að hætta starfsemi árið 2013 og ári síðar sótti félagið um stöðuleyfi á ný. Var því hafnað meðal annars með vísan til þess að starfsemin hefði verið í óleyfi og að ekki hefði fengist samþykki allra landeigenda fyrir henni. Rétt er að nefna að helsti samkeppnisaðilinn var í hópi landeigenda en stóð fyrir utan Sameigendafélagið.

Árið 2012 hafði Ice Lagoon gert leigusamning við Sameigendafélagið sem heimilaði félaginu að gera út báta á lóninu. Samkeppnisaðili félagsins krafðist þess fyrir dómi að viðurkennt yrði að óheimilt væri að gera út téða báta á grundvelli samningsins þar sem ekki hefðu allir landeigendur staðið að honum. Málið endaði fyrir Hæstarétti og var endanlegur dómur kveðinn upp í nóvember 2016. Í atkvæði meirihluta dómara kom fram að samningurinn fæli ekki svo óvenjulega ráðstöfun að samþykki allra eigenda hefði þurft að liggja fyrir.

Andstaða keppinautar og sveitarfélagsins

Áður en sá dómur lá fyrir hafði Ice Lagoon freistað þess áfram að reyna að fá fyrrnefnd stöðuleyfi en slíkt leyfi ekki fengist. Til að gera langa sögu stutta þokaðist það lítið áfram eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir. Árið 2014 hafði félagið kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins og lá álit eftirlitsins fyrir árið 2018.

„Fyrirtækið Ice Lagoon ehf. hefur allt frá árinu 2010 freistað þess að fá aðstöðu undir lausafjármuni við Jökulsárlón til þess að geta stundað þaðan ferðaþjónustu í smáum stíl, á grundvelli samnings við Sameigendafélag Fells, í samkeppni við rekstraraðila sem hefur verið þar til staðar og stundað ferðaþjónustu frá árinu 2000, með umfangsmeiri hætti. Hefur Ice Lagoon ekki aðeins mætt andstöðu keppinautarins heldur einnig sveitarfélagsins, sem hefur margsinnis synjað félaginu um stöðuleyfi á austurbakka lónsins sem og um leyfi á vesturbakkanum og skipað því að leggja niður starfsemi,“ segir meðal annars í áliti eftirlitsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .