Þrátt fyrir að slæmar fréttir haldi áfram að berast telur Frank Jullum, aðalhagfræðingur Fokus Bank, að hægt sé að líta heldur bjartari augum á norskt hagkerfi en áður. Þetta kemur fram í frétt Dagens Næringsliv í dag þar sem haft er eftir Jullum að hann telji að botninn í niðursveiflunni náist á fyrsta fjórðungi í ár. Hann segist telja að fjórði fjórðungur í fyrra og sá fyrsti í ár verði þeir verstu og bati í ýmsum geirum gefi ástæðu til bjartsýni.

Jullum segir að markaður fyrir endursölu á íbúðarhúsnæði sé farinn að virka mun betur en hann hafi gert og að það versta sé að baki í byggingageiranum.

Hann telur að botninum í einkaneyslunni hafi verið náð á síðasta fjórðungi í fyrra og smásala  hafi aukist bæði í nóvember og desember. Þetta segir hann mjög góð tíðindi fyrir verslun og atvinnustig. Þá er hann bjartsýnn um horfur og fjárfestingar í olíugeiranum.