Poppsöngvarinn David Bowie var fyrstur manna til að gefa út svokallað stjörnuskuldabréf. Það gerði hann árið 1997 og notaði eignir sínar, einna helst höfundarétt sinn á fyrrútgefnum plötum sínum, sem tryggingu.

Fjárfestirinn David Pullman vann með Bowie að skuldabréfaútgáfunni, sem var svo síðar seld til Prudential Insurance fyrir 55 milljónir bandaríkjadala. Skuldabréfin voru sértryggð og til tíu ára í senn, og gáfu 7,9% ávöxtun.

Helst voru það höfundaréttargjöld af þeim 25 plötum sem Bowie hafði gefið út sem gerðu listamanninum kleift að standa skil á vaxtagreiðslum af skuldabréfunum. Á þeim tíma sem skuldabréfin voru gefin út námu plötusölur Bowie rúmlega einni milljón árlega.

Árið 2003 færði greiningarþjónusta Moody’s skuldabréfin að lokum úr sjöunda hæsta flokki eða A3, alveg niður í næstneðsta flokk sinn, Baa3, rétt yfir ruslskuldabréfum (e. junk bonds). Þetta gerði greiningardeildin vegna þess að plötusala hafði verið undir væntingum.

Eins og greint var frá í morgun lést David Bowie í gær, 69 ára að aldri. Hann hafði barist við krabbamein í 18 mánuði. Þá gaf hann út plötu aðeins fáeinum dögum áður en hann lést.