Olíufyrirtækið BP spáir lægra olíuverði á næstu áratugum vegna áætlana stjórnvalda víðs vegar um heim að draga úr kolefnislosun. Fyrirtækið hefur lækkað verðspár um 30% og spáir því að hver tunna af Brent hráolíu muni kosta 55 dollara, eða 7.450 krónur, að meðaltali til ársins 2050. BBC segir frá .

BP hefur tilkynnt að vegna lægri verðspáa muni fyrirtækið niðurfæra virði eigna þess um 13 til 17,5 milljarða dollara, eða um 1,8 til 2,4 billjónir íslenskra króna. Fyrirtækið tilkynnti í síðustu viku um fyrirhugaðar uppsagnir á 15% af vinnuafli þess eða um 10 þúsund manns .

Sjá einnig: Olíuverð ekki verið lægra í 21 ár

Fyrirtækið segist hafa „vaxandi væntingar um að tilfærslan í kolefnisminna hagkerfi og orkukerfi verði hraðari í kjölfar faraldursins þar sem þjóðir munu vilja byggja sig betur upp svo að hagkerfi þeirra verði þrautseigari í framtíðinni.“