Breski olíurisinn BP hefur samþykkt að greiða um einn milljarð dala vegna skaðans sem olíuleki félagsins olli á síðasta ári í Mexíkóflóa. Fjármunirnir munu renna til Alabama, Flórída, Lousiana, Mississippi og Texas, samkvæmt frétt BBC.

Peningana á að nota til þess að þrífa svæðið en meðal þeirra landsvæða sem urðu illa úti eru strendur. Þá þurfti að banna veiðar á um þriðjungi flóans og talið er að kostnaður nemi alls tugum milljarða dala.

Samkomulagið um milljarðs dala greiðsluna er það stærsta sem gert hefur verið hingað til. BP stendur nokkuð traustum fótum í dag, eftir að hafa lent í miklum vandræðum í kjölfar olíulekans. Töldu margir að fyrirtækið yrði gjaldþrota en það hefur að mestu náð fyrri styrk, og getur BP meðal annars þakkað hækkandi olíuverði fyrir.