Breska olíufélagið BP hefur komist að samkomulagi um að greiða bandaríska ríkinu og fimm fylkjum þar í landi skaðabætur upp á 18,7 milljarða Bandaríkjadala vegna olíulekans í Mexíkóflóa árið 2010.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna telur að þetta séu stærstu umsömdu skaðabótagreiðslur sögunnar frá einu fyrirtæki og að heildarvirðið gæti jafnvel orðið meira en 19 milljarðar dollara.

Olíulekinn þann 20. apríl 2010 átti sér stað þegar leiðsla í Mexíkóflóanum sprakk og létu 11 starfsmenn lífið. Viðbrögð BP voru harðlega gagnrýnd, en það tók næstum því þrjá mánuði að stöðva hinn gríðarlega leka. Dældist olía á strendur nokkurra fylka.

BP segir að skaðabæturnar nái til krafna frá fylkjunum Alabama, Flórída, Louisiana, Mississippi og Texas. Þá hafi 400 opinberar stofnanir einnig farið fram á bætur og munu fá þær.

BP má búast við því að fá sekt upp á allt að 13,7 milljarða Bandaríkjadala fyrri brot á bandarískum lögum um vatnsmengun.