Anderson Coopers hefur í margar vikur reynt að fá forsvarsmenn BP til að mæta í þáttinn sinn, AC360, en ekki tekist. Hann bloggaði um málið í gærkvöldi þar sem sýnd var úrklippa úr þættinum í hvert sinn sem hann sagðist hafa boðið fulltrúa BP en það hefði ekki gengið eftir. Annað hvort væri skilaboðum ekki svarað eða boðuð væri yfirlýsing sem ekki bærist. Þrátt fyrir daglegar tilraunir til að fá einhvern til að svara spurningum hans hefði þetta ekki gengið eftir.

Coopers sagði að fulltrúi BP mætti glaður í hvern morgunþáttinn á fætur öðrum og hann væri tilbúinn til að vakna snemma ef það væri málið til að fá þá til að tala við sig. Anderson Cooper hefur fylgt olíulekanum í Mexikóflóa vel eftir í þáttum sínum og flutt fréttir frá ýmsum hliðum - nema sjónarhorn forsvarsmanna BP sem hafa hunsað hann. Fyrir vikið lætur hann áhorfendur vita að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir neita fulltrúar fyrirtækisins honum um viðtal.