British Petroleum, sem er næst stærsti olíuframleiðandi Evrópu, mun á morgun loka olíuleiðslukerfi sínu í Norðursjó vegna verkfalls í olíuhreinsistöð í Skotlandi. Olíuframleiðsla í Bretlandi mun dragast saman um 40% vegna þessa.

Olíuverð hefur hækkað gríðarlega í kjölfar þessara tíðinda. Olíuleiðslurnar sem um ræðir flytja sem nemur 700.000 tunnum af olíu á dag frá 50 mismunandi borholum í Norðursjó. Borholurnar munu jafnframt hætta starfsemi meðan olíuleiðslurnar eru óvirkar.

Ökumenn hafa brugðist við þessu í Skotlandi, og hefur bensín klárast víða í Skotlandi vegna hömstrunar.

Verkfallið mun einnig hafa áhrif á gasframleiðslu. Gasframleiðsla mun minnka um allt að því 85 milljónir rúmmetra, sem er um 30% orkuþarfar Bretlands á þessum tíma árs.