Breska olíufyrirtækið BP hefur sætt harðri gagnrýni vegna starfsemi þeirra í Bandaríkjunum og sætir fyrirtækið nú rannsóknum vegna leka sem varð í olíuleiðslum þess í Bandaríkjunum.

Verkfræðirannsókn var gerð á olíuleiðslum BP árið 2000, og kom í ljós í bráðabirgðaútgáfu hennar að varað var við tæringaráhrifum í leiðslunum. Í lokaútgáfu skýrslunnar hafði svo verulega dregið úr gagnrýninni og sum atriði höfðu verið tekin úr, segir í frétt Dow Jones.

Talsmenn BP neita því alfarið og segja að rannsókn þeirra á málinu sýni ekkert sem bendi til þess að þrýstingur frá fyrirtækinu hafi orðið til þess að breytingarnar voru gerðar.

Einn aðilanna sem starfaði við gerð skýrslunnar segir að ekki sé óhugsandi að BP hafi vitað af tæringaráhrifunum og hafi ekki aðhafst vegna sparnaðar, segir í fréttinni.

Forstjóri fyrirtækisins, Robert Malone, viðurkennir að fyrirtækið hafi lent í vandræðum og sé það óásættanlegt. En hann neitar því þó að vandræði fyrirtækisins síðustu 18 mánuðina séu tilkomin vegna ófaglegrar rekstrarstefnu fyrirtækisins.

Malone segir að þrír aðskildir aðilar hafi verið fengnir til að rannsaka tæringaráhrif í leiðslum fyrirtækisins í Alaska og væntir þess að framleiðslugeta BP verði komin upp í 400.000 olíuföt á dag fyrir lok október, sé það gefið að grænt ljós fáist frá yfirvöldum.