Breska olíufyrirtækið BP hefur skilað árshlutauppgjöri fyrir annan ársfjórðung sem var að þessu sinni töluvert verra en á sama tíma í fyrra. Þannig tapaði félagið nú rúmum 6 milljörðum dala. Wall Street Journal greinir frá uppgjöri fyrirtækisins.

Ástæðan fyrir þessu gífurlega tapi eru greiðslur sem fyrirtækið innti af hendi á tímabilinu vegna olíulekans í Mexíkóflóa árið 2010. Samtals nemur fjárhæðin vegna þess 7,5 milljörðum dala, en í júlí gerði fyrirtækið 18,7 milljarða dala sátt við bandarísk stjórnvöld vegna lekans.

Þá kom lágt olíuverð illa við afkomu fyrirtækisins á tímabilinu. Sé kostnaður vegna olíulekans dreginn frá uppgjörinu kemur fyrirtækið út í hagnaði sem nemur 1,31 milljörðum dala, sem er rúmlega helmingi minna en á síðasta ári þegar hann nam 3,63 milljörðum dala.