Brad Pitt hefur sent verslunarkeðjunni Costco bréf þar sem hann sakar hana um að ýta undir slæma meðferð á hænum með því að kaupa egg frá búum sem geyma hænur í of þröngum búrum. Hann hvetur Costco til að hætta að selja egg frá hænsnabúum þar sem illa er farið með hænur.

„Eins og þið vitið þá eru fimm eða jafnvel fleiri fuglar kramdir saman í búr sem eru ekki einu sinni nógu stór til að ein hæna geti breitt út vængi sína,“ segir Pitt. „Í þessum grimmilegu búrum afmyndast bein og vöðvar þessara dýra vegna áralangs hreyfingarleysis. Þess vegna eru þessi búr bönnuð í stærstum hluta Evrópu,“  segir hann jafnframt.

Pitt segist virða Costco fyrir heilindi sín á mörgum sviðum en gagnrýnir fyrirtækið harkalega fyrir að draga lappirnar þegar kemur að eggum. Segir hann fyrirtækið hafa gefið það í skyn fyrir áratug síðan að næsta skref yrði að grípa til aðgerða vegna eggja sem koma frá hænsnabúum með of þröngum búrum.

„Það lítur út fyrir að ekkert hafi gerst í málinu – þrátt fyrir að þið hafið lagt fram tímasetta áætlun til að koma svínum og kálfum úr búrum,“ segir Hollywood-stjarnan hugljúfa.

Hlutabréfaverð Costco stendur í 144,02 dollurum á hlut og ekki orðið fyrir miklum breytingum í dag vegna bréfs Pitt.