Þótt bygging 2-3000 nýrra íbúða sé gott framtak leysir það þó ekki þann bráðavanda sem kominn er upp í Reykjavík, segir Jóhann Már Sigurbjörnsson. Hann er formaður nýstofnaðra Samtaka leigjenda.

Samtökin fara á fund borgarráðs klukkan fimm í dag til þess að ræða réttindamál leigjenda. „Á landinu öllu er félagsleg þörf eftir húsnæði í kring um 28.500 íbúðir en sveitarfélögin  hafa hinsvegar ekki nema 4000 íbúðir yfir að ráða til að mæta þessari þörf,“ segir Jóhann í erindi sem hann sendi fjölmiðlum í dag.

Hann bendir á fimmtu grein sveitastjórnarlaga þar sem segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á og hafi frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skuli sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.