Aukin samkeppni á tryggingamarkaði skilaði því að TM missti stóra viðskiptavini á sama tíma og fyrirtækið varð að lækka verð. „Þegar rót kemur á markaðinn og samkeppni eykst þá lækkar verðið,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Félagið hagnaðist um 700 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi sem var 178 milljónum krónum meira en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að iðgjöld drógust saman um 4,5% á milli ára. Sigurður benti á það á uppgjörsfundi tryggingafélagsins að þótt uppgjörið hafi almennt verið í takti við áætlanir þá hafi ýmsir þættir haft áhrif á afkomuna. Þar á meðal er gengismunur vegna HB Granda sem setti mark sitt á afkomu hlutabréfa TM. Fram kemur í kynningu TM fyrir fjárfesta að þrátt fyrir þetta sé óvarlegt að draga ályktanir út frá einstökum ársfjórðungum, enda geti verið miklar sveiflur í vátryggingarekstri.

„Við erum stórt sjávarútvegstryggingafélag. Það hefur verið mikil bræla í vetur og skip mikið við bryggju. Iðgjöld eru því lægri en við höfðum áætlað,“ sagði Sigurður og sagði ekki góða byrjun fyrir árið að byrja með 4,5% samdrátt iðgjalda. Stjórnendur hafi engu að síður ákveðið að sjá hvernig annar ársfjórðungur þróast. „Ef ekki saxast verulega á minnkunina þá munum við gefa út nýja tekjuáætlun,“ sagði hann.