Guðný Harðardóttir er í forsvari fyrir Breiðdalsbitann sem er nýlegt samstarfsverkefni tveggja sauðfjárræktenda á Gilsárstekk og Hlíðarenda í Breiðdalshreppi. Félagið hefur staðið í vöruhönnun á afurðum sínum. Spurð að því hvernig hugmyndin kviknaði segir Guðný að það hafi gerst á íbúafundi sem haldinn var í Breiðdalshrepp.

„Breiðdalshreppur er þátttakandi í verkefni Byggðastofnunar sem heitir Brothættar byggðir, sem hefur verið yfirstandandi í fjögur ár. Þetta byrjaði á því að það var haldinn íbúafundur, þar sem íbúar sveitarfélagsins hittust og þar kom upp þessi umræða að það vantaði matvælavinnslu innan sveitarinnar. Við gripum því boltann á lofti enda mjög eðlilegt þar sem við erum sauðfjárbændur. Þau eru með okkur í þessu nágrannar okkar á Hlíðarenda, svo þetta er samstarfsverkefni tveggja búa,“ segir Guðný.

Tveir menningarheimar mætast

Guðný segir að verkefnið hafi hlotið styrk frá MATÍS í formi ráðgjafar. Tveir matarhönnuðir að sunnan komu og sóttu bæina heim síðastliðið sumar og segir Guðný að þau hafi unnið skemmtilega vinnu saman.

„Við fórum mikið út fyrir okkar þægindaramma, við sauðfjárbændurnir. Þetta opnaði augu okkar fyrir því sem okkur fannst sjálfsagt. Við eigum mjög bágt með að upphefja okkar búskap og þær afurðir sem koma úr búunum, þetta var mjög hollt fyrir okkur. Ég mæli eindregið með því fyrir þá sem eru að fara í smáframleiðslu að fá einhverja sem eru algjörar andstæður við sig, til að vinna með sér,“ tekur hún fram.

„Það var mikil hugmyndavinna í gangi, við erum með góðan hugmyndabanka, og það munu koma fleiri vörur frá okkur en bara kæfan. Það er ekki alveg ljóst hvað það verður en það er á teikniborðinu.“

Vilja halda heilnæminu á lofti

Guðný segir jafnframt að hreinleikinn verði í fyrirrúmi hjá Breiðdalsbita. „Þetta er sauðfé sem vex og dafnar í Breiðdalnum. Við viljum halda því á lofti að við séum að horfa á heilnæmið í þessu. Þetta er nánast villibráð, þetta kemur beint af fjöllum. Þetta er það sem er kallað á ensku „mountain fresh“ sem ég held að við Íslendingar þurfum að leggja áherslu á eða þeir bændur sem geta gert slátrað beint frá fjalli,“ tekur Guðný fram að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .