Bandaríska sprotafyrirtækið Traveling Spoon leiðir saman erlenda ferðamenn við gestgjafa sem reiða fram máltíðir að staðbundnum sið í heimahúsum. Þjónusta fyrirtækisins stendur ferðamönnum til boða í 38 löndum og 93 borgum um allan heim - meðal annars í Reykjavík.

„Traveling Spoon er eins og að láta mömmu vinar þíns elda heimatilbúna máltíð fyrir þig í hverju einasta landi sem þú heimsækir,“ segir á vefsíðu Traveling Spoon. Fyrirtækið var sett á laggirnar í kringum 2013 af Aashi Vel og Steph Lawrence. Það var sameiginlegur draumur þeirra að gera ferðamönnum kleift að upplifa ekta staðbundna matarmenningu, ásamt því að kynnast menningu og hefðum viðkomandi þjóðar.

Á vefsíðu Traveling Spoon eru auglýstir þrír gestgjafar í Reykjavík. Erlendum gestum er gjarnan boðið upp á lambakjöt eða lax með kartöflum í aðalrétt, en einnig gefst þeim færi á að smakka á hangikjöti, hákarli, harðfisk, hvalkjöti, humarsúpu, sviðakjamma og skyri.

Meðal gestgjafa í Reykjavík eru þeir Bergþór Pálsson söngvari og Albert Eiríksson matreiðslumaður, sem hafa boðið fjórum hópum ferðamanna heim til sín í mat við Lindargötu.

„Við höfum venjulega verið að bjóða upp á lax eða saltfisk í forrétt, lambakjöt í aðalrétt og rabarbaraböku í eftirrétt. Við segjum gestunum frá hráefninu, réttunum, íslenskri matarmenningu sem og íslenskri menningu almennt. Í leiðinni fræðumst við um heimalönd gestanna og þeirra upplifun af Íslandi,“ segir Albert. Þjónusta Bergþórs og Alberts kostar á bilinu 220 til 232 dollara á mann, eða í kringum 23 þúsund íslenskar krónur.

Albert segir reynsluna af þessari þjónustu hafa verið góða og að þeir Bergþór verði áfram opnir fyrir því að taka á móti erlendum gestum. „Við höfum sjálfir gert þetta í útlöndum. Maður upplifir land og þjóð á allt annan hátt við það að fara inn á heimili. Þá kynnist maður því raunverulega hvernig fólk býr.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Björgólfur Thor skoðar fjárfestingartækifæri í Suður-Ameríku
  • Áform Klakka um bónusgreiðslur samræmdust ekki lögum að mati Fjármálaeftirlitsins
  • Tafir á þinglýsingum koma framkvæmdaaðilum illa
  • Icelandair á kauprétt í ríkisflugfélaginu á Grænhöfðaeyjum
  • Fjártæknifyrirtækið Alva hefur tvöfaldað veltu ár eftir ár
  • Greining Íslandsbanka spáir brattari aðlögun hagkerfisins
  • Pósturinn hefur hagnast vel á einkaréttarvarinni póstþjónustu
  • Ítarlegt viðtal við Trond Grande, aðstoðarforstjóra norska olíusjóðsins
  • Umfjöllun um nýja möguleika á saltvatnsveiði á framandi slóðum
  • Igloo Camp ætla sér að bjóða upp á gistingu í hágæðatjöldum í íslenskri náttúru
  • Viðtal við Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur nýjan meðeiganda á Rétti
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um oftrú stjórnmálamanna á hagspár
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um leiðtoga í Reykjavík